Home / Fréttir / ESB-þing og framkvæmdastjórn kynna hernaðarleg áform sambandsins

ESB-þing og framkvæmdastjórn kynna hernaðarleg áform sambandsins

 

Frá ESB-þinginu
Frá ESB-þinginu

ESB-þingið samþykkti 22. nóvember ályktun um að ESB ætti að koma á fót „fjölþjóðlegum her“ með einhvers konar þátttöku „allra aðildarríkjanna“. Í ályktuninni segir einnig að nauðsynlegt sé að koma á fót ESB-aðgerðaherstjórn hún sé „skilyrði fyrir árangursríkri áætlanagerð, stjórn og framkvæmd sameiginlegra aðgerða“.

Markmiðið er að koma á fót herstjórnarskipulagi við hlið NATO. Þá hvetur ESB-þingið einnig til þess að stofnað verði sérstakt ráð varnarmálaráðherra til að hafa pólitíska forystu á hernaðarsviðinu innan ESB. Þingið telur tímabært að samin verði og gefin út hvítbók ESB um öryggis- og varnarmál.

Aðildarríki ESB eru hvött til að miða útgjöld sín til hermála að lágmarki við 2% af vergri landsframleiðslu og fjármunirnir verði ekki aðeins notaðir til að fjármagna kostnaðarsöm verkefni á sviði vopnaframleiðslu eins og „þróun evrópsks dróna-iðnaðar“ heldur einnig til rannsókna. Sagt er að ekki sé alltaf samhljómur milli forgangsmála NATO annars vegar og ESB hins vegar og þess vegna verði ESB að hafa burði til að geta stundað hernað á eigin vegum. Þingið fagnar því sérstaklega að ESB hafi mótað strategic autonomy concept, sjálfstæða strategíska stefnu.

Federica Mogherini, utanríkis- og öryggismálastjóri ESB, hefur lýst markmiðum ESB með því að kalla sambandið „risaveldi“. Þannig vill hún brýna evrópska stjórnmálamenn til að huga að sameiginlegri utanríkis- og varnarmálastefnu í krafti sameiginlegs herafla.

Í þessu samhengi hefur vakið athygli að Roderich Kiesewetter, talsmaður þingflokks þýsku kristilegu flokkanna, CDU/CSU, í utanríkismálum, hefur hvatt til þess að þýsk stjórnvöld knýi á um að Frakkar og Bretar skapi „kjarnorku-hlíf“ fyrir ESB.

Framkvæmdastjórn ESB kynnti miðvikudaginn 30. nóvember aðgerðaáætlun um evrópskar varnir þar sem meðal annars er gert ráð fyrir 5 milljarða evru sjóði til að auðvelda ESB-ríkjum að leggja sameiginlega fé af mörkum til rannsókna og þróunar á vopnabúnaði eins og drónum og þyrlum. Þá er einnig gert ráð fyrir að dregið verði úr hindrunum á vopnasölu milli landa.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði til kynningar á áætluninni: „Til að tryggja sameiginlegt öryggi okkar verðum við að standa sameiginlega að fjármögnun og þróun tækni og tækja sem hafa hernaðarlegt gildi… Gæti Evrópumenn ekki eigin öryggis gerir enginn annar það fyrir okkur.“ Jyrki Katainen, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði af þessu tilefni: „Þetta snýst ekki um ESB-her, þetta snýst ekki um að verja frekar fjármunum til hermála en félagsmála… Við stöndum frammi fyrir margvíslegum ógnum og verðum að gera ráðstafanir.“

 

.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …