Home / Fréttir / ESB: Sjö ára fjárlög afgreidd – samið við Ungverja og Pólverja

ESB: Sjö ára fjárlög afgreidd – samið við Ungverja og Pólverja

 

Leiðtogar ESB funda 10. desember 2020.
Leiðtogar ESB funda 10. desember 2020.

Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði föstudaginn 11. desember að það væri „mikill léttir“ að leiðtogaráð ESB hefði samþykkt fjárlög sambandsins til næstu sjö ára og neyðarsjóð vegna COVID-19-farsóttarinnar. Samkomulag tókst um fjárlögin og sjóðinn að kvöldi fimmtudags 10. desember eftir að Pólverjar og Ungverjar féllu frá beitingu neitunarvalds við afgreiðslu málanna.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði samkomulagið áréttaði enn þá staðreynd að ESB-ríkin gætu komið sér saman um úrræði og framkvæmt þau á „versta áfallatíma“ í sögu sinni.

Ríkisstjórnir Ungverjalands og Póllands lögðu stein í götu fjárlagaafgreiðslunnar á fyrri stigum þegar uppi voru áform um að tengja fjárgreiðslur skilyrðum um að ríki virtu grunnþætti evrópskra gilda.

Stjórnarhættir beggja landa sæta meðferð sem kennd er við 7. grein, það er svonefndan „úrslitakost“ innan ESB sem felur í sér að beita má aðildarríki refsingu sé talið að innan þess sé grafið undan lýðræði eða réttarríkinu. Í Búdapest og Varsjá mótmæla yfirvöld öllum skilyrðum í þessa veru og segja þau líkjast fjárkúgun.

Í samþykktum í tengslum við fjárlagaafgreiðsluna segir að ESB muni semja leiðbeiningarreglur um „skilyrði“ um aðgang að fé úr sjóðum þess. Það verði að verja sjóði sambandsins gegn svikum, spillingu og hagsmunaárekstrunum.

Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, sagði á Facebook fimmtudaginn 10. desember: „heilbrigð skynsemi sigraði“. Hann bætti við:

„Við stóðum vörð um evrópsku stjórnarskrána, við ýttum til hliðar hættunni á því að fjárlagaaðferðum verði beitt til að neyða Ungverja til að taka ákvarðanir gegn vilja sínum og við stóðum vörð um fjármuni Ungverja.“

Talið er mánuðir ef ekki ár líði þar til leiðbeiningarreglurnar um „skilyrðin“ komi til sögunnar. Fyrir utan pólitískar ákvarðanir um efni þeirra verði ESB-dómstóllinn og framkvæmdastjórn ESB að koma að gerð reglnanna.

Ráðamenn Ungverjalands og Póllands leyna ekki ásetningi sínum um að skapa öðrum ESB-ríkjum pólitísk vandræði verði þeim sýnd framkoma sem þeim mislíkar.

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …