
Utanríkisráðherrar ESB-landanna ákváðu mánudaginn 15. nóvember að herða refsiaðgerðir gegn Hvít-Rússum vegna aðferðanna sem stjórnvöld þeirra beita með því að stofna til vandræða við landamæri þriggja ESB-ríkja: Lettlands, Litháens og Póllands. Hundruðum eða þúsundum farenda frá Mið-Austurlöndum er stefnt að landamærunum og þrýst á þá til ólögmætrar farar yfir þau. Undanfarið hefur þrýstingurinn verið mestur við landamærin að Póllandi.
Refsiaðgergerðir ESB hafa til þess beinst gegn Alexander Lukasjenko, forseta Hvíta-Rússlands, og nánustu samstarfsmönnum hans sem stjórna komu farenda til landsins og ferð þeirra að landamærunum. Nú var ákveðið að refsa ríkisflugfélaginu Belavia, ferðaskrifstofum og öðrum sem standa að og skipuleggja ferðir farenda frá Mið-Austurlöndum til Hvíta-Rússlands.
Að mati ESB-utanríkisráðherranna er hafið yfir allan vafa að Lukasjenko og samstarfsmenn hans hafa af ásetningi lokkað farendurna til Hvíta-Rússlands í þeim tilgangi að senda þá að landamærunum til að skapa þrýsting á Pólverja og aðrar ESB-þjóðir.
Með vísan til þessa var ákveðið að herða enn á refsiaðgerðum í von um að Lukasjenko-stjórnin sjái að sér og stöðvi það sem ráðherrarnir kalla fjölþátta stríð (e. hybrid war) gagnvart Evrópu.
„Ég er þeirrar skoðunar að Hvítrússar hagi sér ekki skynsamlega nema beitt sé refsingum. Reynslan hefur sýnt það,“ sagði Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands.
„Refsiaðgerðir skila alltaf árangri því að þær bitna á einstaklingum, eignum þeirra og getu til að ferðast,“ sagði Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB.
Þetta er í fimmta skipti sem ESB-ráðherrarnir taka ákvörðun um refsiaðgerðir gegn Hvíta-Rússlandi eftir að Alexander Lukasjenko náði kjöri sem forseti í sjötta sinn í ágúst 2020. Almenningur í Hvíta-Rússland reis þá gegn honum með ásökunum um kosningasvindl.
Til þess að hafa 166 einstaklingar – þar á meðal forsetinn sjálfur og sonur hans – auk 15 fyrirtækja og annarra aðila í Hvíta-Rússlandi sætt refsiaðgerðum af hálfu ESB. Nú er refsisviðið stækkað og nær til einstaklinga og aðila sem eiga á einn eða annan hátt þátt í tilraunum stjórnvalda til að beita ESB þrýstingi.
Talið er að embættismenn ESB þurfi að minnsta kosti viku til að taka saman nýjan refsilista til að þrengja að Hvítrússum og stöðva ögranir þeirra og fyrirlitningu á því fávísa fólki frá fjarlægum löndum sem þeir beita fyrir stríðsvagn sinn.
Sú krafa er gerð að á listann verði ekki aðrir settir en sannanlega eiga aðild að því að skapa hættuástand með farendum við landamæri ESB-ríkjanna. Liggi sannanir um það ekki fyrir kunna þeir sem á listanum lenda að vinna mál fyrir ESB-dómstólnum, leiti þeir þangað.
Þá verður ekki útlistað opinberlega í hverju refsingarnar felast fyrr en listinn er fullbúinn og samþykktur. Sé þess ekki gætt kunna þeir sem telja sig lenda á listanum að koma sér undan refsingu mið undanskoti af einhverju tagi. Um leið og listinn er birtur taka refsingarnar gildi.
Vladimir Makej, utanríkisráðherra Hvíta-Rússlands, lætur opinberlega eins og refsiaðgerðirnar hafi aðeins „öfug áhrif“ séu þau yfirleitt nokkur. Þá sé fráleitt að halda því fram að hvítrússneska stjórnin eigi nokkurn hlut að því hættuástandi sem hefur skapast við landamærin og í samskiptunum við ESB.
Á hinn bóginn benda fréttamenn á að ýmislegt bendi til þess að nýjasta ákvörðun ESB-ráðherranna og fréttir um að hún væri á næsta leiti hafi strax haft áhrif. Stjórnendur hvítrússneska flugfélagsins Belavia hafa þegar tilkynnt að þeir muni ekki oftar fljúga með Íraka, Sýrlendinga eð Jemena frá Tyrklandi eða Dubai til Hvíta-Rússlands.
Þá tilkynnti Lukasjenko mánudaginn 15. nóvember að stjórn hans gerði allt sem í hennar valdi stæði til að senda farendur aftur sömu leið til baka. Forsetinn sagði vandann þá að fólkið vildi ekki yfirgefa Hvíta-Rússland af fúsum og frjálsum vilja.
Hann segist ekki vilja að vandinn við landamærin breytist í raunveruleg „átök“. Hann sé þó til þess búinn að senda þúsundir farenda áfram til Þýskalands verði ekki opnuð „mannúðleg leið“ fyrir þá þangað.
„Við gætum notað okkar eigin flugvélar til að fara með þá til München, reynist það nauðsynlegt,“ sagði Lukasjenko.
Írakar hafa tilkynnt að fimmtudaginn 18. nóvember hefji flugfélag þeirra að flytja fólk til baka til Bagdad í Írak frá Minsk í Hvíta-Rússlandi.
Heimild: DR