Home / Fréttir / ESB-ríkin efla samvinnu sína í varnarmálum

ESB-ríkin efla samvinnu sína í varnarmálum

Jens Stoltenberg og Frederica Mogherini í fundarsal ESB-ráðherra.
Jens Stoltenberg og Frederica Mogherini í fundarsal ESB-ráðherra.

Ráðherrar 23 af 28 aðildarríkjum ESB hafa skrifað undir áætlun um meiri samvinnu í varnarmálum innan sambandsins en til þessa. Áætlunin miðar að því að samhæfa herafla landanna og kaup þeirra á hergögnum. Fimm ríki: Bretland, Danmörk, Írland, Malta og Portúgal standa utan samstarfsins.

Þetta var tilkynnt eftir fund utanríkisráðherra ESB mánudaginn 13. nóvember. Samstarfið í varnarmálum kallast á ensku permanent structured military co-operation (föst skipan á hernaðarsamvinnu) og er það einkennt með skammstöfuninni PESCO.

Í PESCO felst að hvert ríki leggi fram greinargerð um hvernig það ætli að standa að samvinnunni. Til stuðnings samstarfinu er Varnarmálasjóður Evrópu European Defence Fund en gert er ráð fyrir að í honum verði 5 milljarðar evra árlega frá og með 2020. Sjóðurinn verður notaður til rannsókna og kaupa á hergögnum.

Í yfirlýsingu ráðherraráðs ESB sagði að ákvarðanir um beitingu herafla verði í höndum hvers aðildarríkis. PESCO kemur ekki í stað aðildar ríkjanna að NATO eða að friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, sagði að PESCO lofaði góðu og hét stuðningi við framtakið þótt Bretar stæðu utan þess.

„Við erum þarna eins og veggstuðull til að styðja við dómkirkjuna,“ sagði breski utanríkisráðherrann við fréttamenn.

Federica Mogherini, utanríkis- og öryggismálastjóri ESB, sagði undirskriftir ráðherranna 23 vera „sögulegt augnablik fyrir varnir Evrópu“. Næsta skref verður að skjalinu sem ráðherrarnir undirrituðu verður breytt í formlega tillögu til samþykktar.

Mogherini segir að með því að efla samstarf sitt í varnarmálum styrki ESB-ríkin NATO en samstarf þeirra komi ekki í stað bandalagsins.

Af 28 ESB-ríkjum eru 22 í NATO og ESB, ríkin sex utan NATO eru: Svíþjóð, Finnland, Írland, Austurríki, Kýpur og Malta.

Mogherini telur að með auknu samstarfi takist að nýta fjárveitingar til varnarmála á mun hagkvæmari hátt en nú er gert.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sat mánudaginn 13. nóvember fund varnarmálaráðherra ESB-ríkjanna. Hann fagnar auknu samstarfi ESB-ríkjanna á sviði varnarmála: „Ég tel að með þessu eflist varnir Evrópu. Það er gott fyrir Evrópu en einnig fyrir NATO,“ sagði Stoltenberg.

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …