Home / Fréttir / ESB-ríki taki á móti hælisleitendum eða hraði brottflutningi þeirra sem er hafnað

ESB-ríki taki á móti hælisleitendum eða hraði brottflutningi þeirra sem er hafnað

Ylva Johansson
Ylva Johansson

Fimm árum eftir að farand- og flóttafólk skapaði mikinn vanda innan Evrópusambandsins kynnti framkvæmdastjórn ESB nýja útlendingastefnu miðvikudaginn 23. september sem gerir ráð fyrir að ESB-ríkin hafi þann kost að taka við kvóta hælisleitenda eða taka að sér að flýta brottflutningi þeirra sem ekki fá hæli.

Í New Pact on Migration and Asylum ­– nýjum samningi um fólksflutninga og hæli – er lagt til að ESB-ríki sem bjóðast ekki til að taka á móti fleira aðkomufólki geti þess í stað tekið að sér framkvæma brottflutning hælisleitenda sem er brottvísað. Á þennan hátt er stefnt að því að minnka þrýsting á Ítali og Grikki sem fá mestan fjölda farand- og flóttafólks í fangið við komuna til Evrópu.

Ylva Johansson, framkvæmdastjóri útlendingamála í ESB, vill að aðildarríki sambandsins skuldbindi sig til að jafna byrðina við afgreiðslu hælisumsókna:. „Það er öllum augljóst að tímabundin samstaða eða sjálfboðinn samstaða nægir ekki. Reynsla margra ára sannar það. Hér verður að ríkja skylda.“

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmastjórnar ESB, segir að ESB verði að hverfa frá tímabundnum lausnum. Gamla kerfið dugi ekki lengur.

Á frönsku fréttasíðunni France24 segir að tillaga framkvæmdastjórnarinnar valdi baráttumönnum í þágu aðkomumanna vonbrigðum. Þeir hafi vonað að lögð yrði til upptaka bindandi kvótakerfis til að dreifa flóttamönnum á milli landa ESB. „Þetta er málamiðlun milli útlendingahaturs og hugleysis,“ sagði Frakkinn François Gemenne, prófessor í alþjóðlegum umhverfismálum, á Twitter.

Ursula von der Leyen vill að öll afgreiðsla hælismála verði einfölduð og hraði við að brottvísa fólki sem ekki fær hæli aukinn. Þeir sem koma frá löndum þar sem færri en 20% fá jákvæð svör við hælisumsókn, eins og Túnis og Marokkó, eiga að fá afgreiðslu umsókna sinna innan 12 vikna á landamærum.

Verði ríki fyrir „þrýstingi“ af straumi aðkomufólks og telur að það geti ekki staðist þunga hans getur það óskað eftir að gripið verði til „skuldbindandi samstöðuaðgerða“ af hálfu framkvæmdastjórnarinnar.

Þá verða öll ESB-ríki hvött til að leggja sitt af mörkum eftir efnahag og íbúafjölda. Þau geta valið á milli þess að taka við hælisleitendum eða „kosta“ brottvísun aðkomufólks sem hefur verið hafnað eða lagt fé til að reisa móttökumiðstöðvar.

Gerist eitthvað svipað að nýju og varð árið 2015 þegar rúmlega ein milljón flóttamenn komu til Evrópu miðað við 140.000 á ári núna, getur ríki valið á milli þess að taka á móti flóttamönnum eða taka þátt í brottflutningi þeirra sem neitað er um hæli. Takist ESB-ríki ekki að flytja farandfólk til upprunalands síns á innan við átta mánuðum verður það að veita því hæli. Í Brussel er viðurkennt að þetta geti reynst smáríkjum þungbært.

Fyrir viku sagði Ursula von der Leyen í stefnuræðu sinni að nýju reglurnar mæltu fyrir um nýja stjórnsýslu í útlendingamálum í stað Dyflinnar-reglnanna.

Samkvæmt Dyflinnar-reglunum ber að afgreiða hælisumsókn í landinu þar sem umsækjandi kemur fyrst til Evrópu. Ríkin við Miðjarðarhaf sætta sig mjög illa við regluna vegna þess að þangað liggur þyngsti straumur aðkomufólksins. Ríkin í norðurhluta Evrópu hafa hins vegar mest aðdráttarafl fyrir þá sem komast yfir Miðjarðarhaf og inn í Evrópu. Þau hafna móttöku hælisumsókna á þeirri forsendu að hana beri að afgreiða í suðri, við Miðjarðarhaf.

Í tillögu framkvæmdastjórnarinnar segir að hælisumsókn beri að afgreiða í landi þar sem umsækjandinn á systkini eða þar sem kann að hafa stundað ná eða vinnu. Hvert ríki sem gefi útlendingi vegabréfsáritun verði að afgreiða hælisumsókn hans. Í öðrum tilvikum ber fyrsta aðkomuland hælisleitandans að afgreiða umsókn hans.

France24 segir að sérfræðingar sem hafa kynnt sér tillögurnar segi þær meira eða minna reistar á sömu grundvallarsjónarmiðum og Dyflinnar-reglurnar en sveigjanleiki við framkvæmd reglnanna sé meiri en áður.

Marissa Ryan hjá Oxfam-hjálparstofnuninni segir að reglurnar beri með sér áhrif ESB-ríkisstjórna sem vilja „aðeins fækka þeim sem hljóta vernd í Evrópu“.

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …