Home / Fréttir / ESB og NATO sameinast gegn blendingsstríði

ESB og NATO sameinast gegn blendingsstríði

Finnskir lögreglumenn

Varnarmálaráðherrar ESB-ríkjanna samþykktu þriðjudaginn 19. apríl að koma á fót nýjum hópi til að meta upplýsingar og greina ógnir sem tengjast því sem á ensku er kallað hybrid warfare, það er blendingshernaði. Að sögn The Wall Street Journal (WSJ) telja ýmsir embættismenn að þetta kunni að auka samvinnu ríkjanna gegn hryðjuverkum.

Um er að ræða „samruna-miðstöð“ sem á að auðvelda starfsmönnum Evrópusambandsins að samhæfa upplýsingar sem berast frá einstökum aðildarlöndum sambandsins og hugsanlega koma þannig á viðvörunarkerfi.

Með miðstöðinni yrði að sögn embættismanna unnt að miðla upplýsingum til stofnana og ríkisstjórna innan ESB um ógnir af blendingshernaði, hugtakið er notað til að lýsa blöndu af hefðbundnum og óhefðbundnum átökum.

Hernaðarstefna Rússa vegna Krím og Úkraínu hefur sótt mikið til blendingsaðgerða. Embættismenn segja að hugtakið megi einnig nota um árásir í nafni Ríkis íslams og annarra hryðjuverkasamtaka í Mið-Austurlöndum.

ESB hefur unnið með NATO að samræmingu aðgerða vegna blendingshernaðar. Sumir embættismenn ESB segja að Evrópa sé nú þegar undir blendingsárás frá Ríki Íslams.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, tók þátt í fundi varnarmálaráðherranna ásamt með Federicu Mogherini, utanríkis- og öryggismálastjóra ESB.

Mogherini sagði augljóst að ESB og NATO mundu hafa mikinn hag af nánari samvinnu gegn blendingsógnum.

Innan NATO hafa menn mánuðum saman unnið að endurskoðun blendingshernaðarstefnu bandalagsins. NATO ræður yfir herafla sem má á skjótan hátt beita gegn blendingsógn. Innan NATO telja menn mikils virði að geta nýtt sér tæki ESB á sviði alþjóðasamskipta og efnahagsmála. Þá hafa NATO-ríki einnig stigið varlega til jarðar við töku ákvarðana um að beita kröftum bandalagsins gegn hryðjuverkamönnum í Evrópu og þess stað nýtt sér samstarf innan ESB.

Embættismaður ESB sagði að nú væri staðan þannig baráttunni gegn hryðjuverkamönnum að  mörkin milli hefðbundinna hernaðarátaka og ógnana í garð almennings sem venjulega væri svarað af lögreglu yrðu sífellt óljósari.

„Þegar litið er til blendingsógnana er ljóst að þær tengja innra öryggi og varnir, viðbrögð lögreglu og hers,“ sagði embættismaður ESB.

Heimild: WSJ

 

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …