Home / Fréttir / ESB-leiðtogar vilja meiri hörku við Schengen-landamæri

ESB-leiðtogar vilja meiri hörku við Schengen-landamæri

photo_verybig_193830

Leiðtogar ESB-ríkjanna ræddu um hertari landamæravörslu við ytri landamæri ESB þriðjudaginn 10. nóvember til að bregðast við hættunni sem stafar af öfgafullum íslamistum.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti óskaði eftir leiðtogafundinum eftir hryðjuverk í Frakklandi og Austurríki. Hann hvatti til skjótra samræmdra viðbragða og fordæmdi það sem hann kallaði „misnotkun“ óvandaðra einstaklinga á evrópska hælisleitendakerfinu.

Forsetinn sagði við blaðamenn eftir fjarfund leiðtoganna að í öllum ESB-löndum væri rétturinn til hælisvistar misnotaður af þeim sem stunduðu mansal, glæpahópum eða fólki sem kæmi ekki frá „stríðshrjáðum“ löndum.

Markmið leiðtoganna er að viðhalda áritunarleysi á vegabréf í ferðum milli Schengen-landanna en efla gæslu ytri landamæra svæðisins.

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, sagði að aðeins yrði unnt að tryggja framhald Schengen-samstarfsins ef til harðra aðgerða yrði gripið á ytri landamærunum.

Hann sagði hollensku stjórnina vilja styrkja evrópsku landamæralögregluna, Frontex. Liðsmenn hennar gæta ytri landamæra Schengen-svæðisins.

Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði „brýnt og bráðnauðsynlegt fyrir okkur að vita hver kemur og fer“ af Schengen-svæðinu.

Macron hvatti til meiri gagnadreifingar milli Schengen-ríkjanna vegna þess öryggisbrestur við ytri landamærin eða innan einstakra aðildarríkja ógnaði öryggi allra aðildarríkjanna.

Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, sagði eftir fundinn að hætta á árás væri sífelld. Innan ríkjanna væru þúsundir erlendra hryðjuverkamanna sem hefðu komist lifandi frá átökum í Sýrlandi og Írak sem þeir hefðu háð undir merkjum samtakanna Ríkis Íslams.

„Þetta eru tímasprengjur,·“ sagði Kurz. „Við verðum að bregðast fastar við ógninni sem steðjar að Evrópu.“

Merkel lagði áherslu á að ekki væri um átök milli íslam og kristni að ræða en hins vegar bæri mikil þörf fyrir fyrirmyndar lýðræðislegt samfélag sem stæði gegn hryðjuverkum og ólýðræðislegum aðgerðum í Evrópu.

Macron varaði við hryðjuverkaáróðri og hatursorðræðu á netinu. Frelsi ríkti í netheimum og á samfélagsmiðlum en þeir mættu ekki verða skjól fyrir þá sem ráðist á lýðræðisleg gildi eða útbreiða banvæna hugmyndafræði.

Frakklandsforseti hvatti til þess að á næstu vikum yrðu settar ESB-reglur til að knýja á um að hryðjuverkaáróður yrði fjarlægður úr fjölmiðlum og af vefsíðum.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …