
Leiðtogar ESB-ríkjanna komu saman til fundar í Riga, höfuðborg Lettlands, fimmtudag 21. maí og föstudag 22. maí. Þeir funduðu með leiðtogum sex ríkja sem áður voru hluti Sovétríkjanna, þar á meðal frá Úkraínu, Georgíu og Moldóvu. Var það von leiðtoga þessara þriggja landa að þeir fengju fyrirheit í lokayfirlýsingu leiðtogafundarins um að aðildarviðræður hæfust við ríkisstjórnir landa þeirra.
Niðurstaða leiðtogafundarins var á annan veg: Evrópusambandið mun ekki stækka á komandi árum, síst af öllu með aðild nágrannaríkja Rússlands.
Innan ESB kalla menn samstarf við þessi sex ríki „austursamstarfið“. Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði: „Austursamstarfið snýst ekki um aðild heldur ræktun nánari tengsla.“
Í lokayfirlýsingu Riga-fundarins er sama orðalag og í yfirlýsingu sambærilegs fundar í Vilníus, höfuðborg Litháens, fyrir 18 mánuðum um að leiðtogarnir viðurkenni „evrópskar langanir og evrópskt val viðkomandi samstarfsaðila“.
Þar er einnig haldið fast við „meira fyrir meira“ aðferðina sem kom fyrst til sögunnar árið 2013. Í henni felst að ESB umbunar ríkjum sem laga sig mest og hraðast að kröfum ESB.
Á vefsíðunni EUobserver segir að ákvörðun um að halda sig við þessi atriði úr eldri ályktun hafi verið tekin á elleftu stundu á leiðtogafundinum þar sem sum ESB-ríki óttist að auka á spennu í samskiptum við Rússa. Þau vilja ekki álykta gegn Rússum.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðsins, sagði að „hörð umræða“ hefði verið um orðalagið en menn yrðu að átta sig á að austursamstarfið væri „langt ferli, einkum á þessum erfiða tíma“.
François Hollande Frakklandsforseti sagði að austursamstarfið ætti ekki eða vera ný uppspretta spennu í samskiptunum við Rússa. Þetta er fyrsti fundur leiðtogaráðs ESB undir merkjum austursamstarfsins síðan spennan varð í Úkraínu en hana má rekja til mótmæla í landinu sem urðu eftir að þáverandi forseti Úkraínu vildi ekki rita undir samstarfssamning við ESB vegna hollustu hans við Rússa.
Núverandi forseti Úkraínu vildi að í ályktun fundar leiðtoganna nú í Riga yrði „árás Rússa“ á land sitt mótmælt. Hvergi er þó minnst á Rússland í ályktuninni. Úkraínuforseti sagðist samt „sáttur“ við niðurstöðu fundarins sem hefði sannað „einhuginn innan ESB og sterka samstöðu með Úkraínu“.
Fyrir utan Úkraínu, Georgíu og Moldóvu eru Hvíta-Rússland, Azerbaijdsan og Armenía aðilar að austursamstarfinu við ESB. Leiðtogar þessara ríkja drógu taum Rússa á fundinum og brugðu einkum fæti fyrir alla gagnrýni á þá.