Home / Fréttir / ESB leggur milljón evru dagsekt á pólska ríkið

ESB leggur milljón evru dagsekt á pólska ríkið

Við höfuðstöðvar ESB-dómstólsins.

ESB-dómstóllinn ákvað miðvikudaginn 27. október að pólsk stjórnvöld skyldu greiða milljón evru sekt (150 m. ísl. kr.) hvern dag sem þau fara ekki að fyrirmælum dómstólsins og leggja niður agadeildina við hæstarétt Póllands.

ESB-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í júlí 2021 að agadeildin bryti gegn grunnreglunni um óhlutdrægni dómara.

Í fréttatilkynningu frá ESB-dómstólnum sagði að dagsektin væri „nauðsynleg til að koma í veg fyrir óbætanlega skaða á skipan réttarkerfis Evrópusambandsins og á grunngildum sambandsins, einkum er varðar réttarríkið“.

Framkvæmdastjórn ESB fór krafðist „fjársekta“ 9. september 2021 þegar ljóst var að pólska stjórnin hafði dóminn frá í júlí að engu.

Sebastian Kaleta, vara-dómsmálaráðherra Póllands, sagði á Twitter að sektin fæli í sér „valdarán og fjárkúgun“.

Agadeildinni var komið á fót innan pólska dómskerfisins árið 2018 og hefur hún vald til að reka dómara og saksóknara. ESB-dómstóllinn óttast að agavaldinu kunni að verða beitt gegn þeim dómurum sem sýna sjálfstæði gagnvart vilja stjórnmálamanna.

Fyrr nú í október úrskurðaði stjórnlagadómstóll Póllands að pólsk lög hefðu forgang gagnvart ESB-lögum væru þau ekki samhljóða.

Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, sagði í ræðu á ESB-þinginu í liðinni viku að agadeildin yrði aflögð án þess að nefna nokkur tímamörk eða boða lagafrumvarp þess efnis.

Innan ESB hafa fulltrúar sumra aðildarríkja gagnrýnt pólsk stjórnvöld fyrir að þrengja að frelsi dómara og fjölmiðlamanna. Er því meðal annars haldið fram að pólska dómskerfið hafi gert flokkspólitískt með því að stjórnarflokkurinn, Flokkur laga og réttar, hafi skipað dómara holla sér í embætti.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …