
Federica Mogherini, utanríkismálastjóri ESB, sagði fimmtudaginn 24. september að flotaaðgerðir ESB hæfust gegn smyglurum á Miðjarðarhafi miðvikudaginn 7. október. „Pólitískar ákvarðanir hafa verið teknar, tækin eru tilbúin,“ sagði hún við AFP-fréttastofuna.
Hún sagði að flotadeild ESB hefði fyrirmæli um að fara um borð í skip, leita í þeim og taka þau á alþjóðlegri siglingaleið. Kæmi í ljós að ekki væri allt með felldu yrði áhöfnin handtekin og leidd fyrir ítalskan dómara.
Mogherini heimsótti höfuðstöðvar ESB-flotadeildarinnar, EUnavfor Med, í Róm og sagði í ávarpi sínu þar að ESB hefði nú skýra mynd af vinnubrögðum smyglaranna. Söfnun upplýsinga um þá hófst skipulega á vegum flotadeildarinnar í júní 2015.
Hún sagði að nýlega hefðu 17 líbískir bátar og þrír egypskir verið greindir sem skip til skoðunar í þeim áfanga aðgerðanna sem hefst hinn 7. október.
Um er að ræða þrískipta áætlun, greiningu (1. áfangi), leit og handtöku (2. áfangi) og valdbeitingu í landhelgi Líbíu (3. áfangi). Til að 3. áfangi hefjist er nauðsynlegt að fyrir liggi samþykki öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna (SÞ) eða stjórnvalda í Líbíu.
SÞ segja að meira en 300.000 manns hafi farið sjóleiðina til Evrópu á þessu ári, 200.000 frá Tyrklandi til Grikklands og 110.000 einkum frá Líbíu til Ítalíu.
Federica Mogherini lagði til að framvegis yrði EUnavfor Med auðkennt með nafninu Sófía í höfuðið á stúlku sem fæddist um borð í þýsku björgunarskipi.
Efasemdaraddir hafa heyrst um árangur af þessum flotaaðgerðum ESB. Vincenzo Camporini, fyrrverandi yfirmaður ítalska hersins, sagði við vefsíðuna EUobserver að lífi flóttafólks yrði stefnt í hættu ef floti ESB beitti smyglarana valdi á hafi úti.
Franco Roberti, ítalskur saksóknari með reynslu af glímu við mafíuna, sagði við AFP að í stað flotaaðgerða ætti ESB vinna með ríkjum N-Afríku við að brjóta upp smyglhringi.
Mika Pitkaniemi, yfirmaður í finnsku tollgæslunni, sagði við YLE-fréttastofuna að innan ESB felldu smyglarar sig í skjóli falsaðra sýrlenskra persónuskilríkja sem væru send í pósti frá Tyrklandi. Finnar hefðu gert 500 sendingar með fölsuðum skilríkjum upptæk, þar af 50 fimmtudaginn 24. september.
Heimild: EUobserver