Home / Fréttir / ESB fjármagnar vopnakaup Úkraínumanna

ESB fjármagnar vopnakaup Úkraínumanna

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, boðar aukinn stuðning við Úkraínu 27. febrúar 2022.

Evrópusambandið hefur í fyrsta sinn í sögu sinni ákveðið að fjármagna kaup á vopnum til að aðstoða ríki í stríði. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði um „vatnaskil“ í sögu sambandsins að ræða þegar hún kynnti ákvörðunina sunnudaginn 27. febrúar.

„Í fyrsta sinn í sögu sinni ætlar Evrópusambandið að fjármagna kaup og flutning á vopnum og öðrum tækjum í þágu lands undir árás. Þetta eru vatnaskil,“ sagði von der Leyen.

„Önnur bannhelgi er rofni. Bannhelgin um að Evrópusambandið léti ekki í té vopn í stríði,“ sagði Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB. Hann boðaði að nota fé úr 5,7 milljarða evru Evrópska friðarsjóðnum til að aðstoða Úkraínumenn.

Ursula von der Leyen boðaði einnig að lofthelgi ESB yrði lokað fyrir rússneskum flugvélum. Þetta næði til allra véla sem væru skráðar í Rússlandi, í eigu Rússa eða undir stjórn þeirra. Einkaþotur olígarka væru ekki undanþegnar. Engri þessara véla yrði leyft að lenda innan ESB eða fljúga yfir ESB-landsvæði.

Þá boðaði hún lokun á „fjölmiðlavél Kremlar“ í ESB. Í ákvörðuninni felst að ríkisreknir rússneskir fjölmiðlar eins og Sputnik og Russia Today sem þjóna Pútin „geta ekki lengur dreift lygum sínum í því skyni að réttlæta stríð Pútins og stuðla að sundrung innan sambands okkar,“ sagði forseti framkvæmdastjórnarinnar.

Þá hefur ESB einnig ákveðið að herða refsiaðgerðir gegn Alexander Lukasjenko, einræðisherra Hvíta-Rússlands, fyrir aðild hans að innrásinni í Úkraínu. Aðgerðunum verður beint gegn mikilvægustu atvinnuvegum Hvítrússa, þar á meðal útflutningi á timbri, sementi og stáli.

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …