Home / Fréttir / ESB fagnar Úkraínu – skjaldar Litháen

ESB fagnar Úkraínu – skjaldar Litháen

Utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna 27 voru einhuga á fundi þriðjudaginn 21. júní um að Úkraína fengi stöðu umsóknarríkis gagnvart sambandinu. Nu fer málið fyrir leiðtogaráð ESB síðar í vikunni og er vænst sömu niðurstöðu.

Spenna magnaðist af hálfu Vladimirs Pútins Rússlandsforseta gagnvart Úkraínnu undir árslok 2013 þegar hann snerist gegn áhuga Úkraínumanna á ESB-aðild frekar en að ganga til samstarfs við Rússa um efnahagssamvinnu undir þeirra forystu. Varð þetta til þess að snemma árs 2014 hrökklaðist hollvinur Pútins úr forsetastóli í Úkraínu og Rússlandsforseti hóf hernað gegn Úkraínumönnum með innlimun Krímskaga í mars 2014.

Nú hefur innrás Pútins í Úkraínu leitt til þess á tæpum fjórum mánuðum að Úkraína verður formlega umsóknarríki að ESB. Þá hafa grannríki Rússa, Finnland og Svíþjóð, sótt um aðild að NATO.

Hótanir í garð Litháa

Nikolai Patrushev, öryggismálastjóri Pútins, hótaði Litháum þriðjudaginn 21. júní og sagði það hafa „alvarlegar“ afleiðingar að skorður hefðu verið settar við flutningum varnings með járnbrautarlestum um Litháen til rússnesku hólmlendurnar Kaliningrad.

Litháar segja að með því að banna ýmsan varning séu þeir að framfylgja refsiaðgerðum af hálfu ESB gegn Rússum vegna innrásar þeirra í Úkraínu.

Patrushev sótti fund um öryggismál í Kaliningrad og sagði að „innan skamms“ yrði gripið til gagnaðgerða sem mundu hafa „neikvæð áhrif á íbúa Litháens“.

Héraðsstjórnin í Kaliningrad harmaði bann stjórnar Litháens og Markus Ederer, sendiherra ESB, í Moskvu var kallaður til fundar í rússneska utanríkisráðuneytinu þar sem aðgerðum Litháa í nafni ESB var mótmælt.

Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, sagði mánudaginn 20. júní að ekki væri um neitt allsherjar bann á landflutninga til og frá Kaliningrad að ræða. Ferðir fólks væru ekki takmarkaðar og sama gilti um annan varning en þann sem sætti viðskiptabanni.

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …