
Danir óttast að ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB miðvikudaginn 20. apríl um að sameina krafta innan Evrópusambandsins enn frekar í baráttunni við hryðjuverkamenn kunni að leiða til enn meiri einangrunar þeirra í samstarfinu innan ESB um lögreglu- og réttarfarsmál.
Í þjóðaratkvæðagreiðslu í desember 2015 höfnuðu Danir að fella á brott fyrirvara í ESB-aðildarsamningi sínum um þátttöku í samstarfi ESB-ríkjanna um lögreglu- og réttarfarsmál. Þetta snertir meðal annars aðild Dana að Europol, Evrópulögreglunni.
Hryðjuverkin í París og Brussel hafa enn orðið til þess að innan ESB vilja menn auka samstarf gegn slíkum ódæðisverkum um brjóta niður múra sem eru milli njósnastofnana einstakra landa með því meðal annars að auka valdsvið sameiginlegrar njósnastofnunar í Brussel auk þess sem bein samskipti milli lögregluliða einstakra landa verði aukin.
Meðal þess sem gert verður á þessu ári gangi áætlun framkvæmdastjórnar ESB eftir er að uppfæra fingrafara-gagnagrunn ESB, EURODAC, upplýsingakerfi Schengen (SIS) og efla Europol. Íslensk stjórnvöld eiga aðild að þessu samstarfi og geta nýtt sér þessa gagnagrunna en Danir eru á jaðri samstarfsins vegna séróska sinna.
Lektor í lögfræði við Syddansk Universitet segir við vefsíðuna altinget.dk að áætlun framkvæmdastjórnar ESB boði „þáttaskil“ í samstarfinu innan ESB þar sem Danir hafi sérstöðu þótt þeir taki þátt í gagnhryðjuverkasamstarfi ESB.