Home / Fréttir / ESB býr sig undir viðnám gegn íslömskum vígamönnum

ESB býr sig undir viðnám gegn íslömskum vígamönnum

40574_20170620_sooc

Hryðjuverkasamtökin Daesh (Ríki íslams) tapa nú fótfestu í Sýrlandi og Írak. Julian King, öryggismálastjóri ESB, segir að félagar í samtökunum leggi þó ekki niður vopn og kunni að láta að sér kveða annars staðar.

King kynnti miðvikudaginn 18. október á blaðamannafundi í Brussel áætlun um að veita 120 milljónum evra til að aðstoða ESB-ríki til að verja almenn svæði.

Svæðin sem um er að ræða eru brautarstöðvar, flugvellir og leikvangar en slík svæði hafi mikið aðdráttarafl fyrir vígamenn í heilögu stríði.

Á vegum ESB hefur verið unnið að gerð leiðbeiningarreglna um það hvernig auka eigi öryggi á almennum svæðum án þess að takmarka afnot almennings af þeim.

Við fall Daesh er talið líklegt að margir erlendir vígamenn sem gengu til liðs við samtökin snúi að nýju til Evrópu. Talið er að alls kunni á milli 5.000 og 6.000 vígamenn að halda til Evrópu. „Við búum okkur undir fall kalífaríkisins,“ segir Julian King. „Framkvæmdastjórn ESB mun auka samhæfingu milli ríkja við landamæravörslu og til að uppræta öfgahyggju.“

Framkvæmdastjórnin vill að aðgangur verði takmarkaður að efnum sem nota má til að gera sprengjur. Þá ætlar Europol, Evrópulögreglan, að hefja aðgerðir gegn eiturefnum og geislavirkum efnum.

Loks er talið líklegt að framkvæmdastjórnin kynni tillögu um nýja lögreglusveit „FBI Evrópu“ til að stilla saman strengi greiningardeildir lögregluliða víðsvegar um Evrópu.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …