Home / Fréttir / ESB býr sig undir hernað gegn smyglurum á Miðjarðarhafi

ESB býr sig undir hernað gegn smyglurum á Miðjarðarhafi

 

Cavour, flugmóðutrskip Ítala, verður í forystu flotasveitar ESB á Miðjarðarhafi.
Cavour, flugmóðutrskip Ítala, verður í forystu flotasveitar ESB á Miðjarðarhafi.

Frederica Mogherini, utanríkismálastjóri ESB, skýrði blaðamönnum frá því í Lúxemborg mánudaginn 22. júní að næstu daga hæfist ný aðgerð undir merkjum ESB til að takast á við straum farandfólks frá Líbíu yfir Miðjarðarhaf til Ítalíu eða annarra staða í Evrópu.

Cavour, stærsta flugmóðurskip Ítalía, verður í forystu herskipa frá ESB-ríkjunum sem herða munu eftirlit á þessum slóðum. Taka á annan tug herskipa, þyrlur, eftirlitsflugvélar, kafbátar og drónar þátt í aðgerðinni sem nefnist EUnavfor Med og beinist einkum að svæðinu undan strönd Líbíu.

Belgar, Bretar, Finnar, Frakkar, Grikkir, Hollendingar, Ítalir, Litháar, Lúxemborgarar, Slóvenar, Spánverjar, Svíar, Ungverjar og Þjóðverjar leggja til menn og tæki.

Federica Mogherini sagði að safnað yrði upplýsingum og haldið yrði uppi eftirliti á úthafinu í því skyni að afhjúpa smyglhringi. Markmiðið væri ekki að sækja gegn farandfólkinu sjálfu heldur þeim sem græddu fé á að stofna lífi þess í hættu.

Athuganir benda til þess að flestir sem leggja hina hættulegu sjóferð á sig á þessu ári séu frá Afganistan, Eritreu, Sómalíu og Sýrlandi.

Rúmlega 50.000 hafa komist til Ítalíu í ár, þar af hefur 14.769 verið bjargað af áhöfnum flutningaskipa en 3.483 af skipum sem átt hafa aðild af Triton-aðgerð FRONTEX, Landamærastofnunar Evrópu. Varðskipið Týr og eftirlitsflugvélin Sif hafa tekið þátt í Triton-aðgerðinni.

Innan ESB vona menn að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykki heimild fyrir skip og flugvélar undir merkjum EUnavfor Med til að fara inn í lögsögu Líbíu. Til þessa hafa Rússar og Kínverjar staðið gegn slíkri samþykkt en stjórnleysi ríkir í Líbíu.

Á fyrsta stigi af þremur  beinist aðgerð ESB að öflun upplýsinga. Á öðru og þriðja stigi verður lögð áhersla á að leita uppi og hertaka skip og báta á vegum smyglara. Þá kann að koma til átaka.

Á fyrsta stigi verða ekki orrustuþotur um borð í Cavour en þar er aukarými notað til hjúkrunar. Að loknu fyrsta stigi aðgerðanna breytist yfirbragð hennar og þá kann að verða sótt inn í lögsögu Líbíu til að hafa hendur í hári smyglaranna.

Um 1.000 manns taka þátt í EUnavfor Med aðgerðinni og verður 11,8 milljörðum evra varið til hennar fyrstu tvo mánuðina. Aðgerðastjórnin er í Róm og verður hún að fullu mönnuð í byrjun júlí.

Heimild: EUobserver

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …