Home / Fréttir / ESB býr sig undir að hefja flotaaðgerðir gegn smyglurum á Miðjarðarhafi – NATO vill aðstoða

ESB býr sig undir að hefja flotaaðgerðir gegn smyglurum á Miðjarðarhafi – NATO vill aðstoða

Cavour, flugmóðutrskip Ítala, verður í forystu flotasveitar ESB á Miðjarðarhafi.
Cavour, flugmóðutrskip Ítala, verður í forystu flotasveitar ESB á Miðjarðarhafi.

Innan NATO eru menn til þess búnir að veita ESB aðstoð til að stemma stigu við starfsemi smyglara á farand- og flóttafólki yfir Miðjarðarhaf. Þetta kemur fram í grein sem Nikolaj Nielsen skrifar á vefsíðuna EUobserver föstudaginn 28. ágúst, Hann vitnar í embættismann NATO sem segir bandalagið munu „rétta hjálparhönd berist um það ósk“ frá Evrópusambandinu.

Fyrr á árinu lét Jens Stoltenberg, framkvæmastjóri NATO, svipuð ummæli falla á leiðtogafundi ESB um málefni farand- og flóttamanna.

Federica Mogherini, utanríkismálastjóri ESB, sagði fimmtudaginn 27. ágúst að rætt væri um það innan ESB hvernig beita ætti herflota sambandsríkja við aðgerðir á Miðjarðarhafi – EUnavfor Med – hvernig herskipum yrði „falið að láta að sér kveða á úthafinu til að bregðast á öflugri hátt við starfsemi glæpahringa“.

Varnarmálaráðherrar ESB-ríkjanna koma saman í Lúxemborg í næstu viku til að ræða framkvæmd aðgerðarinnar sem var boðuð í júní í því skyni að „að finna, taka og eyðileggja skip“. Hún er enn á upphafs- og könnunarstigi.

Ætlað er að aðgerðin standi í eitt ár og henni verði stjórnað frá ítalska herskipinu Cavour, þar verði einnig breska herskipið Enterprise, tvö þýsk herskip, flugvélar frá Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu og Lúxemborg auk tveggja kafbáta.

Enrico Credendino, flotaforingi og yfirmaður aðgerðarinnar, sagði á fundi með sendiherrum ESB-ríkja í Brussel fimmtudaginn 27. ágúst að nú stæði allt til reiðu til að hefja annan áfanga aðgerðarinnar. Í honum felst að heimilt verður að taka og leita um borð í grunsamlegum skipum.

Reuters-fréttastofan hafði eftir heimildarmanni að framkvæmd annars áfanga krefðist nýrra skipa, fleiri hermanna og meira fjármagns.

Í þriðja áfanga felst að bátar verða eyðilagðir „helst áður en lagt er úr höfn“ og smyglarar handteknir.

Um 2.300 manns hafa drukknað á þessu ári í tilraunum til að sigla frá Líbíu til Evrópu.

Smyglarar starfa refsilaust í Líbíu sem er að minnsta kosti klofin milli fjögurra valdahópa. Stjórnin í Tripólí sem ræður yfir flestum brottfararstöðu á strönd landsins hefur ekkert samband við ESB, sambandið viðurkennir aðeins stjórn sem situr í borginni Tobruk. Á meðan Gaddafi einræðisherra stjórnaði Líbíu borgaði ríkisstjórn Ítalíu honum fyrir að loka strönd landsins fyrir farand- og flóttamönnum.

Vincenzo Camporini, yfirmaður ítalska hersins 2008 til 2011, sagði við EUobserver fyrr í sumar að aðgerðir herskipanna mundu að lokum auðvelda smyglurunum að stunda lögbrot sín. Návist herskipanna tryggði fleiri farand- og flóttamönnum örugga ferð yfir hafið.

Hann fór lofsamlegum orðum um Credendino, yfirmann EUnavafor Med, en sagði að eyðilegging báta og aðstöðu þeirra við eða á strönd Líbíu mundi kalla á aukna hættu fyrir almenna borgara, smyglarar mundu nota þá sér til skjóls, auk þess mundu hópar hryðjuverkamanna ráðast á flota ESB.

Á EUobserver er einnig vitnað í ónafngreindan franskan öryggisfræðing með reynslu frá Líbíu sem efast um aðgerð ESB.

„Hefur þú nokkra hugmynd um hvað sjó/land skotflaug kostar í samanburði við fiskibát Líbíumanns?“ spurði hann, „Allir raunverulegir sérfræðingar í Evrópu – í her, flota, öryggisfyrirtækjum – hlægja að þessu,“

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …