Home / Fréttir / ESB beitir Svisslendinga þrýstingi – forsetinn vill leiðsögn þjóðarinnar

ESB beitir Svisslendinga þrýstingi – forsetinn vill leiðsögn þjóðarinnar

Jean-Claude Juncker,  forseti framkvæmdastjórnar ESB, ræðir við Doris Leuthard, forseta Sviss.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, ræðir við Doris Leuthard, forseta Sviss.

Doris Leuthard, forseti Sviss, hvetur til þess að Svisslendingar gangi til þjóðaratkvæðagreiðslu um samband sitt við Evrópusambandið. Ástæðan fyrir þessu er að nýlega ákváðu Brusselmenn að veita svissnesku kauphöllinni aðeins eins árs aðgang að innri markaði ESB. Þetta er gert til að beita svissnesk stjórnvöld þrýstingi við gerð rammasamnings við ESB.

Ummæli forsetans birtust í blaðaviðtali sunnudaginn 24. desember. Ný tilskipun fyrir fjármálamarkaði ESB (MiFID II/MiFIR) tekur gildi 3. janúar 2018. Svissneskir embættismenn hafa brugðist illa við að Svisslendingum sé aðeins heilmild aðild að tilskipuninni í eitt og hafa hótað að grípa til gagnráðstafana.

Samskipti Sviss og ESB eru reist á tvíhliða samningum en um nokkurt skeið hafa embættismenn frá Sviss og ESB reynt að ná samkomulagi um rammasamning sem kæmi í stað aragrúa tvíhliða samninga.

Í samtali við Sonntags Blick sagði Leuthard að tvíhliða lausnin væri mikilvæg og nauðsynlegt væri að skýra hvernig samskiptunum við ESB skyldi háttað. Stjórnin yrði að vita hvaða stefnu hún ætti að taka. Við það yrði gagnlegt að geta stuðst við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um grundvallarviðhorf.

Nýlega samþykkti svissneska ríkisstjórnin að auka fjárgreiðslur til sameiginlegra sjóða ESB og var talið að það mundi auðvelda gerð framtíðarsamnings um aðild Svisslendinga að innri markaði ESB.

Víðtækur framtíðarsamningur milli ESB og Sviss sætir hins vegar andstöðu Þjóðarflokks Sviss (SVP) sem er andvígur nánara samstarfi við ESB.

Forsetatignin færist milli ráðherra í Sviss og í lok þessa árs hverfur Leuthard úr forsetastólnum. Í blaðaviðtalinu taldi hún rangt af ESB að grípa til tæknilegra aðgerða gegn svissnesku kauphöllinni til að knýja fram gerð rammasamningsins. Svisslendingar sættu sig ekki við slíka valdbeitingu, hún væri hins vegar liður í pólitískum samskiptum við ESB og menn yrðu að búa við það.

Leuthard sagðist skilja að Svisslendingar grunuðu ESB um græsku en sagði óhjákvæmilegt að semja við sambandið þar sem um 66% viðskipta Svisslendinga séu við það.

„Við getum eflt samstarf okkar við Indverja og Kínverja en ESB er áfram aðalatriði. Við þurfum reglur og skiplögð tengsl við ESB sem útiloka einnig pólitíska leiki eins og stundaðir eru núna,“ sagði forsetinn.

Heimild: DW

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …