Home / Fréttir / ESB ætlar að beita smyglara farandfólks hervaldi – Frontex sinnir borgaralegu hlutverki

ESB ætlar að beita smyglara farandfólks hervaldi – Frontex sinnir borgaralegu hlutverki

Ráðherraráð ESB hefur samþykkt að koma á fót flotadeild til að takast á við þá við Miðjarðarhaf sem standa að því að heimta fé af farandfólki fyrir að smygla því á bátum frá Líbíu yfir Miðjarðarhaf. Ætlunin er að hefja gagnaðgerðir af þessu tagi í næsta mánuði og mun ítalskur flotaforingi stjórna þeim frá Róm að sögn Fredericu Mogherini, utanríkis- og öryggismálastjóra ESB, mánudaginn 18. maí.

Boðaði Mogherini þetta að loknum fundi utanríkis- og varnarmálaráðherra ESB-ríkjanna sem ræddu leiðir til að stemma stigu við hinum mikla og vaxandi straumi farandfólks yfir Miðjarðarhaf frá Afríku til Evrópu. Unnið er að því á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að öryggisráðið veiti ESB lagalegan grunn til að beita þá hervaldi sem skipuleggja smygl á fólki.

Flotaaðgerð ESB verður þríþætt: söfnun upplýsinga um smyglarana, leit að bátum smyglara, eyðing smyglarabáta. „Í sjálfu sér er áherslan ekki á að eyðileggja bátana heldur á að eyðileggja „viðskiptamódel“ smyglaranna sjálfra,“ sagði Mogherini.

Utanríkismálastjórinn sagði að samvinna við embættismenn í Líbíu væri lífsnauðsynleg í þessu sambandi en vandinn væri sá að þjóðfélagið væri splundrað milli stríðandi fylkinga.

Ítalski flotaforinginn Enrico Credendino mun stjórna ESB-aðgerðinni en hann hafði forystu af hálfu ESB þegar tekist var á við sjóræningja undan strönd Sómalíu.

Rúmlega 1.800 hafa farist á leið sinni yfir Miðjarðarhaf á árinu 2015. Það er 20 sinnum fleiri en á sama tíma árið 2014.  Talið er að um 60.000 manns hafi gert tilraun til að fara yfir Miðjarðarhaf á þessu ári í von um betra líf í Evrópu.

Landhelgisgæsla Íslands (LHG) hefur haldið úti varðskipinu Tý á þessum slóðum farandfólksins síðan 1. desember 2014 og eftirlitsflugvélin TF-SIF hefur einnig verið þarna að störfum.

Þá er fulltrúi landhelgisgæslunnar við störf í sameiginlegri stjórnstöð sem tekur þátt í áætlanagerð og er milliliður við varðskip og flugvél gæslunnar. Skip og flugvél LHG sinna löggæslu- og björgunarstörfum í umboði og undir forystu Frontex, Landamærastofnunar Evrópu. Skil eru dregin milli starfa á vegum Frontex annars vegar og hernaðar- og flotastarfa hins vegar.

Á vefsíðu LHG segir að þeir starfsmenn sem LHG sendi til starfa í stjórnstöð Frontex séu að öllu jöfnu skipstjórnarmenn eða aðrir starfsmenn með umtalsverða reynslu í stjórnstöð, flugdeild, sjómælingadeild, sprengjudeild eða á varðskipum. Viðkomandi er á vakt allan sólarhringinn þann tíma sem hann er á staðnum en það eru að jafnaði 3 vikur. Dagleg störf fulltrúans eru margvísleg, hann tekur þátt í daglegum stöðufundum, greiningu og miðlun upplýsinga, aðstoðar við samskipti milli eininga og stjórnstöðva Frontex og/eða strandgæslu/sjóhers viðkomandi ríkis. Einnig á fulltrúinn í daglegum samskiptum við landhelgisgæsluna á Íslandi og fulltrúa annarra þjóða í stjórnstöðinni. Í þeim aðgerðum sem LHG hefur tekið þátt í, er fulltrúi hennar yfirleitt beinn þátttakandi.

Danska ríkisstjórnin hefur ákveðið að senda Challenger-vél til að halda uppi eftirliti á Miðjarðarhaf sagði Nicolai Wammen, varnarmálaráðherrar Danmerkur, mánudaginn 18. maí. Danska konungsfjölskyldan og danski forsætisráðherrann nota vélar af þessari gerð á ferðum til annarra landa. Danska vélin mun starfa undir merkjum Frontex. Á nýlegum fundi sínum ákváðu leiðtogar ESB-ríkjanna að auka fjárveitingar til Frontex.

Ætlun Dana er að Challenger-vélin nýtist í sumar til eftirlits á hafinu fyrir sunnan Ítalíu. Samskonar vél CL-604 var frá desember 2011 til febrúar 2012 notuð til eftirlits gegn sjóræningjum við Sómalíu. Danir telja sig því ráða yfir fólki með mikla reynslu á þessu sviði.

Í Jyllands-Posten segir að með hliðsjón af ákvörðunum ESB-ráðherranna nú 18. maí um að beita smyglara í Líbíu hervaldi megi nýta upplýsingarnar sem safnað sé af áhöfn dönsku flugvélarinnar í þágu ítalska flotaforingjans og þess liðsafla sem mun starfa á hans vegum. Wammen varnarmálaráðherra telur af og frá að með slíkri notkun á upplýsingunum sé brotið gegn fyrirvara Dana um að taka ekki þátt í hernaði á vegum ESB.

„Það sem gert er á vegum Frontex fellur undir Schengen-samstarfið og er þess vegna ekki í andstöðu við danska fyrirvarann vegna hernaðar,“ sagði Wammen og einnig: „Hún [flugvélin] er ekki lánuð til annarra aðgerða. Ef þeir [Frontex] miðla upplýsingunum vegna annarra aðgerða er það þeirra mál.“

Danska Challenger-vélin hefur störf strax í júní. Alls fylgja henni 12 til 13 manns. Vélin verður lánuð í 40 daga með einu hléi. Hún á að snúa aftur til starfa á heimavelli fyrir lok september.

.

Miðjarðarhaf

Skoða einnig

Kínverjar staðfesta nýjan áhuga á að fjárfesta í hánorðri Rússlands

Sömu dagana og Xi Jinping, forseti Kína, heimsótti Moskvu var kínversk viðskiptasendinefnd í norðlæga rússneska …