Home / Fréttir / Erna Solberg lýsir Trump sem vingjarnlegum og áhugasömum

Erna Solberg lýsir Trump sem vingjarnlegum og áhugasömum

Erna Solberg og Donald Trump í Hvíta húsinu. Mynd: NTB
Erna Solberg og Donald Trump í Hvíta húsinu. Mynd: NTB

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, heimsótti Donald Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsið í Washington miðvikudaginn 11. janúar. „Við áttum góðan fund. Mér fannst hann þægilega einlægur og áhugasamur um að fræðast meira um Noreg,“ sagði Solberg við norska blaðamenn fyrir utan Hvíta húsið eftir fundinn með forsetanum.

„Við ræddum lítillega hvort í Noregi væri að finna bestu skíðastaðina eða ekki, en fyrir mig sem Björgvinjarbúa átti ég erfitt með að svara því,“ sagði forsætisráðherrann,

Þegar hún var spurð hvort hún hefði skoðun á andlegri heilsu Trumps svaraði hún: „Nei, mér fannst hann venjulegur maður með kímnigáfu, sem lagði sig fram um að vera viðfelldinn og vingjarnlegur.“

Norski utanríkisráðherrann Ine Eriksen Søreide var ánægð með fundinn í Hvíta húsinu eins og forsætisráðherrann.

„Mér fannst mjög gott að hitta forseta sem var áhugasamur og vel undir búinn,“ sagði utanríkisráðherrann við NTB-fréttastofuna.

Erna Solberg gaf forsetanum golfkúlu af Ping-gerð sem rekja má til Karstens Solheims, Bandaríkjamanns af norskum ættum.

Á fundinum var rætt um öryggismál, NATO-samstarfið, ástandið í Afganistan og alþjóðaviðskipti. Með vísan til þeirra vakti Solberg máls á loftslagsmálum og Parísar-samningnum.

„Ég reyndi að höfða til hans með því að benda á að ýmis viðskiptatækifæri felast í að fjárfesta í verkefnum sem stuðla að betra loftslagi,“ sagði Erna Solberg.

Eftir fundinn fór Donald Trump lofsamlegum orðum um Noreg. Hann fullyrti að enn hefði tekist að styrkja „einstaka vináttu“ þjóðanna, bar lof á Norðmenn fyrir styrk þeirra og ævintýramennsku og nefndi ferðir Eiríks rauða til marks um hana.

„Árhundruðum síðar tókst hugrökkum Norðmönnum að komast frá hernumdum Noregi til að berjast við hlið Bandaríkjamanna og bandamanna meðal annars á strönd Normandie árið 1944,“ sagði Trump.

„Norðmenn og Bandaríkjamenn hafa áratugum saman staðið hlið við hlið gegn sameiginlegum ógnum við frelsi sitt, við öryggi sitt og gegn gildum okkar. Saman höfum við barist gegn fasisma, kommúnisma og hryðjuverkum. Við stöndum saman gegn öllum ógnum, við erum bandamenn,“ sagði forsetinn.

Trump lagði sérstaka áherslu á að viðskipti við Norðmenn væru Bandaríkjunum í vil, þeir gætu ekki sagt það um margar þjóðir. Hann sagði Norðmenn góða viðskiptavini, bandamenn og vini – í þessari röð.

„Hann hugsar svona sem kaupsýslumaður, það er ljóst. Við höfum keypt mikið af hergögnum af Bandaríkjamönnum,“ sagði Solberg.

Norska stjórnin hefur gagnrýnt Trump fyrir að afneita Parísar-samkomulaginu fyrir hönd Bandaríkjanna. Forsetinn áréttaði að alþjóðlegi lofstlagssamningurinn væri ósanngjarn fyrir Bandaríkjamenn og óhagstæður fyrir efnahag þeirra og atvinnulíf.

Solberg endurtók að það ætti ekki að endurskoða Parísar-samkomulagið til að fá Bandaríkjamenn aftur í hópinn en hún sagði að það ætti ekki að lýsa stöðunni af of mikill svartsýni:

„Ef Bandaríkjamenn halda áfram á sömu braut og til þessa við minnkun útblásturs verður það bara gott fyrir umhverfið og fyrir loftslagið,“ sagði hún.

Heimild: ABC Nyheter – mynd NTB

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …