Home / Fréttir / Erkiklerkur Írana hótar öllu illu

Erkiklerkur Írana hótar öllu illu

Ayatollah Ali Khamenei
Ayatollah Ali Khamenei

Erkiklerkur Írana sagði föstudaginn 17. janúar að Donald Trump Bandaríkjaforseti væri „trúður“ sem létist standa með írönsku þjóðinni en hann mundi „stinga eitruðum rýtingi“ í bak hennar. Var þetta í fyrsta sinn í átta ár sem Ayatollah Ali Khamenei flutti ræðu við föstudagsbænir í Teheran.

Ayatollah Ali Khamenei sagði að fjöldaþátttakan í útför Soleimanis hershöfðingja sem Bandaríkjamenn drápu 3. janúar sýndi að íranska þjóðin styddi Íslamska lýðveldið þrátt fyrir raunir þess undanfarið. Hann sagði að „lúalegt“ morðið á Soleimani hefði rutt þeim foringja úr vegi sem barðist gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams með mestum árangri.

Morðinu svaraði íranski herinn með flugskeytaárás á bandaríska hermenn í Írak án þess að valda þeim alvarlegum skaða. Khamenei sagði að árásirnar hefðu verið „högg á ímynd Bandaríkjanna“ sem risaveldis. Ræðan var að hluta flutt á arabísku en erkiklerkurinn sagði að „raunveruleg refsing“ fælist í að hrekja Bandaríkjamenn frá Mið-Austurlöndum.

Þegar byltingaverðir Írana bjuggu sig undir bandaríska gagnárás vegna flugskeytaárásanna, en til hennar kom aldrei, skutu þeir fyrir mistök niður úkraínska farþegaþotu skömmu eftir flugtak frá Teheran-flugvelli. Þar féllu allir 176 um borð, farþegarnir voru flestir frá Íran.

Í þrjá daga fóru írönsk stjórnvöld leynt með hlut sinn að málinu og sögðu fyrst að um tæknilegt vandamál hefði verið að ræða. Eftir að stjórnvöldin viðurkenndu hlut sinn kom til mótmæla í Teheran sem öryggissveitir dreifðu með beitingu skotvopna og táragasi.

Khamenei lýsti árásinni á flugvélina sem „sáru slysi“, harmur Írana væri jafnmikill og ánægja óvina þeirra. Hann sagði óvini Írans hafa nýtt sér slysaskotið til að vega að Íslamska lýðveldinu, byltingarvörðunum og hernum.

Hann fór einnig hörðum orðum um Vesturlönd sagði þau of veikburða til að „knésetja Írana“ Hann sagði ríkisstjórnir Bretlands, Frakklands og Þýskalands „fyrirlitlega þjóna“ Bandaríkjamanna. Í vikunni reyndu ríkisstjórnir landanna þriggja að virkja ákvæði í kjarnorkuvopnasamningnum frá 2015 til að knýja Írana til að virða samninginn.

Ayatollah Ali Khamenei sagði Írana fúsa til viðræðna en ekki við Bandaríkjamenn.

Ayatollah Ali Khamenei (80 ára) hefur farið með æðsta vald í Íran síðan 1989. Hann á lokaorðið um allar höfuðákvarðanir stjórnvalda. Hann grét við útför Soleimanis og hét því að „láta kné fylgja kviði“ gagnvart Bandaríkjamönnum.

Þúsundir manna tóku þátt í föstudagsbænunum. Af og til varð erkiklerkurinn að gera hlé á máli sínu vegna hrópa mannfjöldans: „Guð er mestur!“ og „Drepist Bandaríkin!“

Eftir drápið á Soleimani tilkynnti Íransstjórn að hún væri ekki lengur bundin af kjarnorkusamningnum frá 2015. Ayatollah Ali Khamenei hefur alla tíð lýst efasemdum um samninginn enda sé ekki unnt að treysta Bandaríkjamönnum.

 

Heimild: AP

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …