Home / Fréttir / Erfið leið Kúrda til sjálfstæðis

Erfið leið Kúrda til sjálfstæðis

la-1506367291-rjovwye23f-snap-image

Kúrdar eru um 35 milljónir nokkuð sem gerir þá að fjórða stærsta þjóðernishópnum í Mið-Austurlöndum (hinir þrír eru Arabar, Tyrkir og Íranir).  En þrátt fyrir að þeir séu svona fjölmennir eiga þeir ekki eigið ríki.  Þess í stað búa þeir sem minnihlutahópar í ýmsum ríkjum.  Flestir eru þeir í Tyrklandi, Sýrlandi, Íran og Írak.

Á yfirráðasvæði Kúrda í síðast talda ríkinu var mánudaginn 25. -september haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort að Kúrdar þar skyldu stofna eigið ríki.  Styðji Kúrdar í Írak þá hugmynd er þó ekkert víst að Kúrdistan verði stofnað.  Atkvæðagreiðslan er ekki bindandi og svæðið er illa í stakk búið til að standa á eigin fótum.  Skuldir sjálfstjórnarsvæðisins eru miklar og það hefur úr litlum fjármunum að spila auk þess sem alvarlegar deilur eru innan herafla Kúrdanna.  Sumir segja að forseti svæðisins, Massoud Barzani, hafi einmitt boðað til þjóðaratkvæðagreiðslunnar til þess að dreifa athyglinni frá þessum vandræðum og einræðistilburðum hans sjálfs.  Svo skiptir ekki síður máli að atkvæðagreiðslan fer fram í óþökk yfirvalda í Bagdad.  Vesturlönd eru líka á móti henni því þau óttast að hún kunni að leiða til þess að átök blossi upp milli Kúrda og ýmissa annarra ríkja sem barist hafa við hryðjuverkasamtökin ISIS.

Þessar áhyggjur eru ekki úr lausu lofti gripnar því deilur hafa lengi einkennt samskipti Kúrda við ríkisstjórnir landanna fjögurra sem voru talin upp hér að framan.  Um 15-20% Tyrkja eru Kúrdar og hafa hinir fyrrnefndu lengi reynt að bæla niður þjóðerniskennd tyrkneskra Kúrda.  Þetta leiddi til vopnaðra átaka milli tyrkneska stjórnarhersins og Kúrda á 9. áratugnum sem ekki sér fyrir endann á.  Um 40.000 manns hafa fallið í þessum átökum.

Í Sýrlandi eru um 7-10% þjóðarinnar af kúrdísku bergi brotin og þar er svipaða sögu að segja og í Tyrklandi þ.e. að stjórnvöld reyndu að draga úr áhrifum Kúrda í ríkinu.  Þannig hefur um 300.000 þeirra verið neitað um ríkisborgararétt frá 7. áratugnum og stjórnvöld tóku oft land frá Kúrdum og gáfu Aröbum það.   Eftir að borgarastríðið hófst í Sýrlandi árið 2011 hafa Kúrdar þar notað tækifærið og náð landsvæðum á sitt vald.

Á tímabili nutu Kúrdar nokkuð meiri réttinda í Írak en í fyrrnefndu löndunum tveimur, en þar eru þeir tæplega fimmtungur landsmanna, sem má meðal annars sjá af því að þeirra var getið í stjórnarskránni sem var samin eftir að valdarán batt enda á konungsdæmið í landinu árið 1958.   Staða þeirra versnaði hins vegar til muna á síðasta aldarfjórðungi síðustu aldar og því nýttu þeir tækifærið eftir að Bandaríkjamenn sigruðu Íraka í fyrra Flóastríðinu árið 1991 og komu á fót sjálfstjórnarsvæði í norðurhluta landsins.

Um 10% Írana teljast vera Kúrdar.  Rekja má deilur Kúrda í vesturhluta landsins og annarra Írana til uppreisnar sem stóð frá 1918-1922 og síðan þá hafa Kúrdar af og til gripið til vopna gegn stjórnvöldum í Teheran.  Þeir höfðu bundið miklar vonir við uppreisnina árið 1979 sem steypti keisaranum af stóli en klerkaveldið sem tók við reyndist ekkert vinveittara þeim heldur en hann.  Nýjasta lota átakanna hófst árið 2016.

 

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …