Home / Fréttir / Erdogan vængstýfður þrátt fyrir sigur í þjóðaratkvæðagreiðslu

Erdogan vængstýfður þrátt fyrir sigur í þjóðaratkvæðagreiðslu

Erdogan í kjörklefanum.
Erdogan í kjörklefanum.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, lýsti yfir sigri stefnu sinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu sunnudaginn 16. apríl. Stjórnarskrá Tyrklands verður breytt með því að stórauka vald forsetans. Mjótt var á munum í atkvæðagreiðslunni og krefjast andstæðingar Erdogans endurtalningar.

Kjörstjórn lýsti yfir sigri já-manna síðla kvölds sunnudaginn 16. apríl. Ríkisfréttastofan Anadolu sagði að 51,2% hefðu sagt já en 48,8% nei. Kjörstjórnin birtir endanlega niðurstöðu sína innan 11 til 12 daga.

Soner Cagaptay, sérfræðingur í málefnum Tyrklands við Washington Institute for Near East Policy og höfundur nýrrar bókar um Erdogan telur að naumur sigur forsetans sé til heilla frekar en að boða framhald stjórnmálaupplausnar. Hann sagði við The Washington Post:

„Ég tel þetta í raun „bestu“ niðurstöðuna. Hefði Erdogan tapað hefði það leitt til tímabils óstöðugleika þar sem hann hefði krafist þess að atkvæðagreiðslan yrði endurtekin eins og margir höfðu spáð, hefði hann unnið með yfirburðum hefði hann „farið út úr kortinu“ og tekið sér öll völd. Nú hefur hann verið vængstýfður og hann hefur verið auðmýktur.“

Meirihluti Tyrkja í Þýskalandi, 63,1%, sagði já við stjórnarskrárbreytingunum sagði Anadolu en 73,5% í Austurríki. Tyrkir búsettir utan Tyrklands gátu greitt atkvæði í sendiskrifstofum Tyrklands á tveimur vikum fyrir kjördag.

Angela Merkel Þýskalandskanslari hvatti Erdogan til þess mánudaginn 17. apríl að stofna til „tilhlýðilegra viðræðna“ við ólíkar fylkingar í tyrknesku samfélagi.

Í sameiginlegri yfirlýsingu Merkel og Sigmars Gabriels, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði: „Ríkisstjórnin væntir þess að tyrkneska ríkisstjórnin muni nú beita sér fyrir tilhlýðilegum viðræðum við allar stjórnmálalegar og samfélagslegar hreyfingar í landinu eftir þessa hörðu kosningabaráttu.“

Tyrklandsforseti bar lof á tyrknesku þjóðina fyrir að hafa tekið „sögulega ákvörðun“ með því að styðja stjórnskipulegar breytingar sem auka vald forsetans.

„Af frjálsum huga hefur þjóðin látið í ljós vilja sinn. Við munum nú vinna saman að mikilvægustu breytingum í sögu stjórnarskrár okkar kæra lands,“ sagði Erdogan í sigurræðu sinni.

Stjórnmálaskýrendur segja að Erdogan og menn hans í AKP-flokknum hafi gert sér vonir um meira fylgi við tillögur sínar. „Þetta er ákvörðun fólksins. Nýr kafli hefst nú í lýðræðissögu okkar,“ sagði Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands, á svölum höfuðstöðva AKP-flokksins í Ankara.

Forsætisráðherraembættið verður lagt niður með nýju stjórnarskránni.

Andstæðingar forsetans og stjórnarskrárbreytinganna komu saman víðs vegar um Istanbúl og börðu potta og pönnur til að árétta mótmæli sín. Í fyrsta sinn frá 1994 hlaut Erdogan ekki stuðning meirihluta kjósenda í Istanbúl. Þykir það til marks um að kjósendur AKP-flokksins í þéttbýli hafi ekki sömu trú á forsetanum og áður. Hundruð manna mótmæltu einnig í öðrum borgum og bæjum Tyrklands.

Tveir stjórnarandstöðuflokkar hafa sagt að þeir muni láta reyna á hvort rétt hafi verið staðið að framkvæmd atkvæðagreiðslunnar.

Lýðræðisflokkur Kúrda (HDP) sagði að ástæða væri til að kanna rækilega tvo þriðju atkvæðanna: „Vísbending er um að misfarið hafi verið með 3 til 4% atkvæðanna,“ sagði í yfirlýsingu flokksins.

Lýðveldisflokkur alþýðunnar (CHP) sagði að kanna þyrfti hvernig staðið var að meðferð allt að 60% atkvæðanna. Kemal Kilicdaroglu, formaður flokksins, sagði að flokkurinn mundi ekki samþykkja niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar, að minnsta kosti 50% þjóðarinnar hefði í raun sagt nei.

Neyðarlög hafa gilt í Tyrklandi undanfarna mánuði í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar og um 47.000 manns hafa verið handtekin eftir misheppnaða valdaránstilraun hersins gegn Erdogan í júlí 2016.

Eftirlit var með framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar á vegum Öryggissamvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) og Evrópuráðsins.

Í áliti frá eftirlitsnefnd ÖSE sagði að í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar hefðu keppinautar ekki notið jafnréttis: „Við urðum vitni að misbeitingu aðstöðu undir handarjaðri ríkisins og að því að þeir sem studdu Nei fengu ekki að efna til kosningaviðburða,“ sagði í yfirlýsingu ÖSE.

„Það varpaði skugga á baráttuna að sumir háttsettir embættismenn líktu Nei-stuðningsmönnum við fylgismenn hryðjuverka og oftar en einu hafði lögregla afskipti af Nei-stuðningsmönnum og þeir hafa mátt sæta ólátum á fundum sínum.“

ÖSE-nefndin sagði að ekki hefði komið til neinna vandræða þegar greidd voru atkvæði sunnudaginn 16. apríl „nema á einstaka svæðum“.

Fulltrúar Evrópuráðsins sögðu að þjóðaratkvæðagreiðslan hefði ekki farið fram í samræmi við kröfur ráðsins. Lagaramminn um atkvæðagreiðsluna hefði ekki dugað til að tryggja raunverulega lýðræðislega framkvæmd.

Í áliti fulltrúa Evrópuráðsins segir: „Kjósendur fengu ekki upplýsingar um mikilvæga þætti breytinganna sem munu færa mikið vald til forsetans.

Gengið var til þjóðaratkvæðagreiðslunnar í pólitísku andrúmslofti þar sem í nafni neyðarlaga var vegið að grundvallaréttindum sem eru ráðandi þættir í raunverulegu lýðræðisstarfi. Þá höfðu báðir aðilar ekki sömu tækifæri til að kynna kjósendum málstað sinn.“

Skömmu eftir að niðurstaða í atkvæðagreiðslunni lá fyrir endurtók Erdogan áform sín um að taka að nýju upp dauðarefsingu í Tyrklandi. Hann sagði að styddi stjórnarandstaðan ekki frumvarp um það efni kynni hann að efna til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál.

Taki Tyrkir um dauðarefsingu binda þeir enda á allar tilraunir sínar um aðild að Evrópusambandinu.

Evrópusambandið brást við úrslitunum í Tyrklandi af varkárni og hvatti tyrkneska ráðamenn til að leita eftir sem víðtækastri sátt á heimavelli vegna þess hve litlu munar á fylgi andstæðra fylkinga.

Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar skapaðist veruleg spenna í samskiptum tyrkneskra stjórnvalda við stjórnvöld í ýmsum Evrópulöndum sem vildu ekki að barátta ólíkra tyrkneskra fylkinga yrði háð innan landamæra sinna. Gerðist Erdogan stóryrtur vegna þessa og sakaði þýsk og hollensk stjórnvöld meðal annars um nazíska tilburði.

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …