Home / Fréttir / Erdogan tapar Istanbúl í annað skipti

Erdogan tapar Istanbúl í annað skipti

Ekrem Imamoglu. sigurvegari kosninganna í Istanbúl.
Ekrem Imamoglu. sigurvegari kosninganna í Istanbúl.

Stjórnmálaskýrendur segja að Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hafi ekki beðið verri hnekki á 25 ára göngu sinni sem stjórnmálamaður en þann sem hann varð fyrir í Istanbúl sunnudaginn 23. júní þegar flokkur hans varð undir í borgarstjórnarkosningum þar.

Efnt var til kosninganna að kröfu Erdogans og flokks hans af því að þeir sættu sig ekki við að tapa þeim 31. mars sl. Kröfðust þeir að kosningarnar yrðu endurteknar og urðu þá undir á nýjan leik.

Flokksmenn Erdogans í AKP-flokknum lögðu allt undir til að sigra í Istanbúl ekki síst til að bjarga andliti forsetans sem var yfirborgarstjóri þar á tíunda áratugnum. Þar lagði hann grunn að stjórnmálaframa sínum. Í borginni búa 15 milljónir manna og þaðan koma 33% af vergri landsframleiðslu (VLF) Tyrklands.

Ekrem Imamoglu er sigurvegari kosninganna. Hann er 49 ára gamall leiðtogi flokks jafnaðarmanna, CHP. Hann sagði sigurinn leiða til þess að ný hlið á Tyrklandi kæmi í ljós og ný forsenda skapaðist fyrir lýðræðislega þróun. Hann sagði þetta ekki sigur eins flokks heldur allra Tyrkja.

Í fyrri kosningunum í Istanbúl 31. mars 2019 hafði CHP betur með 14.000 atkvæðum. Að þessu sinni var atkvæðamunurinn um 750.000 atkvæði og fylgið rúm 54%.

Erdogan blandaði sér í kosningabaráttuna í Istanbúl á lokastigum hennar. Meðal þess sem vakti athygli í ræðum hans var að yrði AKP-flokkurinn undir væri það aðeins staðfesting á lýðræðislegum stjórnarháttum í Tyrklandi.

Nú þegar úrslitin eru kunn bíða menn innan og utan flokks Erdogans eftir viðbrögðum hans. Um sömu helgi og kosið var féllu nokkur hundruð lífstíðardómar yfir einstaklingum sem sættu ákæru fyrir þátttöku í misheppnuðu valdaráni sumarið 2016. Þykir það staðfesta að Erdogan sé eins harðskeyttur og áður.

Margir í stjórnarandstöðu Tyrklands óttast að Erdogan herði nú enn tökin. Hann hefur ýjað að sakamáli gegn Imamoglu með vísan til fullyrðinga um að hann hafi lýst nálægum embættismanni sem „blendingi“. Imamoglu segir þetta ósatt.

Erdogan knúði fram endurkosninguna með þrýstingi á landskjörstjórn. Hún brást við með að segja að galli hafi verið á framkvæmd upphaflegu kosninganna sem leiddu til þess að forsetaflokkurinn, AKP, missti völdin í fjórum af fimm stærstu borgum Tyrklands, þ. á m. Istanbúl.

 

Heimild: Jyllands-Posten

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …