Home / Fréttir / Erdogan og Pútín ætla að styrkja vináttu- og viðskiptabönd – greinir á um Sýrland

Erdogan og Pútín ætla að styrkja vináttu- og viðskiptabönd – greinir á um Sýrland

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti í St. Pétursborg 9. ágúst 2016.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti í St. Pétursborg 9. ágúst 2016.

Forsetar Rússlands og Tyrklands hafa lýst vilja til að hefja náið samstarf á nýjum grunni eftir næstum sjö mánaða kulda í samskiptum sínum eftir að Tyrkir skutu niður rússneska orrustuþotu í nóvember 2015.

Forsetarnir hittust í St. Pétursborg þriðjudaginn 9. ágúst. Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti sagði Vladimír Pútín Rússlandsforseta að Tyrkir væru að hefja „allt annars konar tímabil“ í samskiptunum við Rússa og að samvinna milli ríkjanna mundi auðvelda lausn svæðisbundinna vandamála.

Hann hét því einnig að endurvekja hernaðarlegt, efnahagslegt og menningarlegt samstarf. Erdogan kallaði Pútín „kæran vin“ og þakkaði honum innilega fyrir að hringja í sig eftir að tilraun til valdaráns í Tyrklandi föstudaginn 15. júlí hafði verið kæfð.

„Að þú komir hingað í dag þrátt fyrir mjög erfitt ástand í innanlands-stjórnmálum gefur til kynna að við viljum allir hefja samræður að nýju og endurvekja tengslin milli Rússa og Tyrkja,“ sagði Pútín.

Sérfræðingar benda á að bæði innan Tyrklands og Rússlands glími menn við efnahagsvanda. Þá sæti Erdogan gagnrýni frá Vesturlöndum vegna harkalegra viðbragða hans við valdaránstilrauninni. Rússar búi hins vegar við efnahagsþvinganir af hálfu Vesturlanda.

Kristian Brakel, sérfræðingur Þýsku utanríkismálastofnunarinnar, búsettur í Istanbúl, sagði við Radio free Europe/Radio Libert (RFE/RL) eftir fund forsetanna að þeir hefðu góðar ástæður til að bæta samskipti sín, báðir glímdu við efnahagsvanda og báðir vildu skapa mótvægi gegn Vesturlöndum.

Á það er hins vegar bent að hvað sem líði heitstrengingum um nánara samstarf virðist eitt stærsta vandamálið í samskiptum ríkjanna óleyst, það er hvernig leiða eigi átökin í Sýrlandi, nágrannaríki Tyrklands, til lykta.

Erdogan hefur verið hávær andstæðingur Bashars al-Assads Sýrlandsforseta og hefur átt virkt samstarf við Bandaríkjastjórn um að sigrast á hryðjuverkahópum í Sýrlandi og auka áhrif hógværra stjórnarandstæðinga.

Rússar hafa lengi stutt Assad og látið her hans í té vopn auk þess að nota Miðjarðarhafshöfnina Tartus í Sýrlandi. Rússar hófu loftárásir í Sýrlandi í september 2015 og hafa styrkt stöðu hers Assads með þeim.

Forsetarnir sögðust mundu ræða málefni Sýrlands. Brakel segir að afstaða þeirra til ástandsins í Sýrlandi sé svo ólík að mjög erfitt verði að sætta sjónarmið þeirra.

Frá 15. júlí hafa rúmlega 20.000 menn verið handteknir í Tyrklandi og mörg þúsund manna hafa misst atvinnu vegna ásakana um að þeir séu handbendi kennimannsins Fethullahs Gülens sem flutti í útlegð í Bandaríkjunum.

Dómsmálaráðherra Tyrklands sagði þriðjudaginn 9. ágúst að Bandaríkjamenn mundu „fórna sambandinu“ við Tyrki framseldu þeir ekki Gülen til Tyrklands. Bandaríkjastjórn segir að Tyrkir verði að leggja fram sannanir um að Gülen hafi staðið valdaránstilrauninni. Sjálfur hafnar Gülen allri aðild að henni.

„Ég vil endurtaka að það er grundvallarafstaða okkar að vera alltaf algjörlega á móti öllum aðgerðum andstæðum stjórnarskránni,“ sagði Pútín á blaðamannafundinum með Erdogan í St. Pétursborg. „Ég vil láta í ljós þá von að tyrknesku þjóðinni takist að sigrast á þessum vanda [eftirleik valdaránstilraunarinnar] undir þinni forystu og að regla ríki og stjórnlög gildi að nýju.“

Eftir að Tyrkir skutu niður rússnesku orrustuþotuna bönnuðu Rússar sölu á skipulögðum hópferðum til Tyrklands – þessa sumarleyfisferðir voru vinsælar meðal Rússa. Rússar lokuðu einnig á innflutning á landbúnaðarvörum frá Tyrklandi og bönnuðu starfsemi tyrkneskra byggingarfyrirtækja. Viðskipti milli landanna drógust saman um 43% í 6,1 milljarð dollara frá janúar til maí í ár. Rússneskum ferðamönnum í Tyrklandi fækkaði á sama tíma um 87%.

Rússar sátu einnig uppi með skell vegna þessa þar sem vinnu við Turk Stream var hætt. Þetta er rússnesk leiðsla fyrir jarðgas sem ætlunin er að flytji 31,5 milljarða rúmmetra af gasi árlega til Tyrklands. Þá varð einnig hlé á framkvæmdum við rússneskt kjarnorkuver á Miðjarðarhafsströnd Tyrklands.

 

Heimild: RFE/RL, Reuters, AP, AFP og TASS

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …