Home / Fréttir / Erdogan leiðir Tyrki í skulda- og gjaldþrotakreppu

Erdogan leiðir Tyrki í skulda- og gjaldþrotakreppu

 

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti.

Líklegt er að hrun tyrknesku lírunnar leiði til skuldakreppu og greiðslustöðvunar. Ekki sér enn fyrir endann á henni. Tyrknesk stjórnvöld bregðast ekki við vandanum heldur hótar Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti „efnahagslegu stríði“.

Þýska fréttastofan Deutsche Welle (DW) segir að gjaldeyriskreppa ríki í Tyrklandi og lítil merki séu um að ríkisstjórnin hafi áform um að taka á henni þótt við blasi versta hrun á gjaldmiðli nýmarkaðslands á síðari tímum.

Hætta er á að krísan leiði til þess að 18. stærsta hagkerfi heims taki dýfu og við blasi gjaldþrot sem smiti út frá sér í nýmarkaðslöndum og Evrópu.

Frá ársbyrjun hefur tyrkneska líran fallið um 40%, þar af um 22% föstudaginn 10. ágúst. Frá því að Erdogan var endurkjörinn forseti í júní með meiri völd en áður hefur fall lírunnar verið 30%.

Donald Trump Bandaríkjaforseti ýtti undir efnagshörmungar Tyrkja föstudaginn 10. ágúst með því að hækka tolla á tyrknesku stáli og áli. Þótt tollarnir vegi ekki þungt fjárhagslega í heildarmyndinni (1 milljarður dollara) skipta þeir miklu fyrir viðhorf þeirra sem stunda viðskipti almennt við Tyrkland og á mörkuðum þar.

„Gjaldmiðill þeirra, tyrkneska líran, lækkar hratt gagnvart mjög sterkum dollar okkar,“ sagði Trump á Twitter. „Samskipti okkar við Tyrki eru ekki góð um þessar mundir.“

Erdogan birti laugardaginn 11. ágúst grein í leiðaraopnu The New York Times og sagði: „Bandaríkjamenn hafa hvað eftir annað og staðfastlega látið hjá líða að skilja og virða áhyggjur tyrknesku þjóðarinnar. Taki Bandaríkjastjórn ekki að virða fullveldi Tyrklands og sanni að hún skilji þær hættur sem steðja að þjóð okkar kynni samstarfi okkar að verða stefnt í voða.“

Tyrknesk stjórnvöld hafa bandaríska prestinn Andrew Brunson í haldi og setur það mikinn og síversnandi svip á samskipti stjórnvalda Bandaríkjanna og Tyrklands. Þá hafa Tyrkir brugðist illa við stuðningi Bandaríkjamanna við liðsmenn Kúrda í Sýrlandi. Erdogan hefur áform uppi um að kaupa eldflaugakerfi frá Rússum. Hann krefst þess að Bandaríkjastjórn framselji múslimaklerkinn Fetullah Gülen sem er landflótta í Bandaríkjunum, sakar Erdogan hann um að hafa staðið að baki misheppnaðri valdaránstilraun í júlí 2016. Þá reynir enn á samstarf ríkjanna í nóvember þegar viðskiptabann Bandaríkjamanna á Íran verður hert en Íranir eru helstu seljendur á olíu og gasi til Tyrklands.

Hvað sem líður deilum ráðamanna í Washington og Ankara auka þær aðeins á tyrkneska efnahagsvandann en eru ekki undirrót hans.

Tyrkneskur almenningur fer í hraðbanka til að taka út sparifé,
Tyrkneskur almenningur fer í hraðbanka til að taka út sparifé,

Mánuðum saman hefur verið varað við því að í óefni stefndi og hagstjórn Erdogans auðveldar ekki glímuna við vandann.

Umit Akcay, hagfræðiprófessor við Hagfræði- og lagaháskólann í Berlín sagði á Twitter: „Því miður er það að gerast sem við höfum varað við mánuðum saman. Í Tyrklandi ríkir gjaldeyriskreppa. Við erum á leið inn í mjög erfiða tíma. Ríkisstjórnin ber ábyrgðina.“

Gjaldeyrisstaða Tyrklands er hefðbundið neikvæð og bilið er brúað með erlendum lánum. Í leit að háum vöxtum buðu erlendar lánastofnanir Tyrkjum lán til að fjármagna ríkissjóðshalla, mikil ríkisútgjöld og lánaþörf fyrirtækja. Hagvöxtur reistur á lántökum, einkum í byggingariðnaðinum, einkennir tyrkneska hagkerfið.

Undanfarna mánuði hafa erlendir fjárfestar hins vegar dregið saman seglin í Tyrklandi eftir að bandaríski seðlabankinn hækkaði vexti og dró úr inngripum sínum vegna batnandi efnahags í Bandaríkjunum.

Við þetta hefur gengi dollarsins hækkað, gengi lírunnar lækkað og kostnaður við tyrknesk skuldabréf hækkað. Verðbólga er nú 15% í Tyrklandi og hefur ekki verið hærri í 14 ár.

Vegna falls lírunnar eykst ótti manna við að tyrknesk fyrirtæki og bankar sem skulda erlendum lánadrottnum  í dollurum og evrum geti ekki staðið í skilum. Þar með verður gjaldeyriskreppan að skulda- og gjaldþrotakreppu.

Tyrkneski hagfræðingurinn Korkut Boratav sagði við DW: „Ógn fjármálakreppu steðjar að Tyrklandi, ekki er staðið í skilum vegna lána, fyrirtæki lýsa sig gjaldþrota og þetta lendir síðan á bönkunum. Við stefnum í þessa átt.“

Í þessu samhengi öllu er jafnframt vakin athygli á að fjárfestar hafi misst trúna á hagstjórn Erdogans. Hann fylgir óvenjulegri efnahagsstefnu sem reist er á lágum vöxtum og stöðugum árásum á „vaxta-þrýstihópinn“.

Eftir sigurinn í forseta- og þingkosningunum í júní skaut Erdogan markaðsöflunum skelk í bringu með því að herða tök sín á seðlabankanum.

Berat Albayrak, tengdasonur Erdogans, nýskipaður fjármálaráðherra, boðar misheppnaða efnahagsstefnu 10.ágúst.
Berat Albayrak, tengdasonur Erdogans, nýskipaður fjármálaráðherra, boðar misheppnaða efnahagsstefnu 10.ágúst.

Alþjóðlegir fjárfestar væntu þess að Mehmet Simsek, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, yrði áfram í embætti. Í stað þess að ýta undir traust út á við með því ákvað Erdogan að skipa Berat Albayrak, tengdason sinn, fjármálaráðherra með aukið valdsvið. Vegna þessa hafa menn áhyggjur af sjálfstæði seðlabankans.

Nú þegar líran hrynur og efnahagskreppan blasir við öllum vekja viðbrögð Erdogans ekki traust. Hann og ýmsir ráðherra hans tala um „efnahagslegt stríð“ sem háð sé af níðingslegum erlendum aðilum í þeim tilgangi að grafa undan Tyrklandi.

Föstudaginn 10. ágúst hvatti forsetinn Tyrki til að skipta gulli sínu og dollurum í lírur. Á sama tíma kynnti Albayrak efnahagsáætlun sem náði aldrei flugi og var á skjön við sjálfan efnahagsvandann.

Ekkert bólar á skjótum róttækum aðgerðum til að vekja traust inn á við og út á við hvorki með því að hækka vexti eða leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Þess í stað höfðar ríkisstjórnin til þjóðarstolts og stundar upphrópanir.

Fimmtudaginn 9. ágúst sagði Erdogan við stuðningsmenn sína: „Samsærin eru mörg. Látið þau sem vind um eyru þjóta. Þeir eiga dollarann, við eigum þjóð okkar … og Allah.“

 

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …