Home / Fréttir / Erdogan hótar ESB að opna landamærahliðin

Erdogan hótar ESB að opna landamærahliðin

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sagði föstudaginn 25. nóvember að Tyrkir mundu ekki áfram stöðva för farand- og flóttafólks til Evrópu ef ESB héldi áfram að beita þá þrýstingi.

Daginn áður hafði ESB-þingið samþykkt að setja skyldi aðildarviðræður ESB og Tyrkja á ís. Erdogan sagði í Istanbúl og beindi orðum sínum að ESB:

„Ef þið stigið lengra en þetta verða landamærahliðin opnuð. Þessar hótanir hafa hvorki áhrif á mig né þjóð mína. Það skipti engu máli þótt þið féllust allir að niðurstöðu [ESB-þingsins].“

Stjórn Tyrklands og ESB sömdu um lokun landamæra Tyrklands í mars 2016. ESB lofaði að leggja fram milljarða evra í stuðning við Tyrki og að afnema vegabréfsáritunarskyldu fyrir Tyrki.

„Það kemur í okkar hlut að fæða 3-3,5 milljónir flóttamanna í landi okkar,“ sagði Erdogan í ræðu sinni 25. nóvember. „Þið svikuð loforð ykkar.“

Frá því að tilraun var gerð til valdaráns í Tyrklandi um miðjan júlí 2016 hafa meira en 125.000 manns – þ. á m. hermenn, háskólamenn, dómarar, blaðamenn og forystumenn hlynntir Kúrdum – verið handteknir eða reknir frá störfum.

ESB-þingið samþykkti ályktun fimmtudaginn 24. nóvember með 479 atkvæðum gegn 37 þar sem framkvæmdastjórn ESB og ríkisstjórnir ESB-landa eru hvattar til frysta aðildarviðræður ESB og Tyrklands. Þær hafa staðið í 11 ár án markverðs árangurs.

Federica Mogherini, utanríkismálastjóri ESB, sagði að yrði farið að tillögu ESB-þingsins yrði enginn bættari. Best væri að stuðla að auknu lýðræði í Tyrklandi með því að halda öllum boðleiðum opnum.

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …