Home / Fréttir / Erdogan hættir þvergirðingi gegn NATO-aðild Svía

Erdogan hættir þvergirðingi gegn NATO-aðild Svía

Sögulegt handsal 10. júlí 2023 í Vilníus um NATO-aðild Svía. Frá vinstri: Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti, Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, og Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svía.

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti féll loks að kvöldi 10. júlí 2023 frá andstöðu við aðild Svía að NATO en umsókn um hana var formlega lögð fram 5. júlí 2022. Lá samþykki forsetans fyrir eftir að hann og Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svía, hittust ásamt Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, á fundi í Vilníus, höfuðborg Litháens. Ríkisoddvitafundur NATO-ríkjanna hefst þar þriðjudaginn 11. júlí.

Skömmu áður en Erdogan veitti samþykki sitt við NATO-aðild Svía og lofaði að greiða fyrir afgreiðslu á umsókn þeirra á tyrkneska þinginu hafði hann sett sem skilyrði fyrir samþykki sínu að ESB tæki að nýju upp aðildarviðræður við tyrknesk stjórnvöld. Þessari kröfu Erdogans var hafnað.

Boðað var til blaðamannafundar í Vilníus að kvöldi mánudagsins 10. júlí þar sem Stoltenberg, Erdogan og Kristoffersen handsöluðu aðild Svía að NATO. „Þetta er sögulegt skref sem styrkir NATO í heild og eykur öryggið,“ sagði Jens Stoltenberg.

Á blaðamannafundinum sagði Stoltenverg að Svíar og Tyrkir ætluðu að efna til tvíhliða samstarfs gegn hryðjuverkum og Svíar myndu leggja sitt af mörkum innan ESB til að greiða fyrir að rætt verði við fulltrúa tyrkneskra stjórnvalda um ESB-aðild. Þá yrði komið á fót embætti „samhæfingarstjóra gegn hryðjuverkum“ innan NATO.

Sunnudaginn 9. júlí ræddi Joe Biden Bandaríkjaforseti við Erdogan í síma.  Tilkynning sem Biden birti eftir símtalið hefur víða verið túlkuð á þann veg að Bandaríkjastjórn legðist ekki lengur gegn því að Tyrkir keyptu F-16 orrustuþotur eins og þeir hafa lengi viljað. Fréttaskýrendur segja að Tyrklandsforseti hafi líklega talið að hann næði ekki meiri árangri með þvergirðingshætti á vettvangi NATO.

Ulf Kristersson forsætisráðherra sagði á blaðamannafundinum í Vilníus: „Ég er yfir mig ánægður. Þetta er góður dagur fyrir Svíþjóð.“ Þetta hefði verið langur dagur á langri leið Svía til aðildar að NATO. Með aðildinni lýkur endanlega 200 ára hlutleysi Svía.

Skömmu áður en blaðamannafundurinn um aðild Svía var haldinn gerði Erdogan hlé á samtali sínu við Kristersson og ræddi við Charles Michek, forseta leiðtogaráðs ESB.

Michel sagði að þeir hefðu átt „góðan fund“ og kannað tækifæri sem fyrir lægju til að tryggja að samvinna ESB og Tyrklands fengi athygli að nýju. Tyrkland hefur verið formlegt umsóknarríki gagnvart ESB síðan 2005 og um mun lengri tíma lýst áhuga á aðild að sambandinu.

Þegar niðurstaðan um NATO-aðild Svía lá fyrir sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti:

„Ég er reiðubúinn til að vinna með Erdogan forseta og Tyrkjum að því að efla varnir og fælingarmátt  á Evró-Atlantshafssvæðinu. Mér er fagnaðarefni að bjóða Kristersson forsætisráðherra og Svía velkomna sem 32. aðildarþjóð NATO.“

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …