Tæplega 2.000 flóttamenn komust til Grikklands frá Tyrklandi mánudaginn 21. mars þrátt fyrir nýjan samning Tyrkja og ESB sem átti að stöðva straum fólksins. Tyrkneskir embættismenn halda nú til Grikklands til að framkvæma samninginn.
Miðstöð Grikkja sem samræmir aðgerðir vegna komu flótta- og farandfólksins eftir því sem það er unnt sagði mánudaginn 21. mars, 24 stundum eftir að samningur Tyrkja og ESB kom til framkvæmda að á þeim tíma hefðu 1.662 aðkomumenn þegar stigið á land í Grikkland. Nú er talið að 50.411 strandaglópar séu í Grikklandi.
Gengið var frá samningi ESB og Tyrklands í Brussel föstudaginn 18. mars. Með honum er ætlunin að loka fyrir smygl á fólki til grísku eyjanna í Eyjahafi frá Tyrklandi.
Opnuð hefur verið skráningarstöð inn á Schengen-svæðið í Moria-flóttamannabúðunum á grísku eyjunni Lesbos og þangað eru þeir fluttir sem koma með bátum. Þeir geta þar lagt fram umsókn um hæli.
Þýska fréttastofan DW segir að margir sem komu í stöðina mánudaginn 21. mars hafi ekki vitað um nýtt fyrirkomulag milli Tyrkja og ESB. Þeim er nú haldið innan Moria-búðanna á meðan hælisumsóknir eru skoðaðar með hraði. Fram til þessa hafa þeir sem komu í búðirnar verið frjálsir ferða sinna og getað farið til meginlands Grikklands og þaðan áfram til annarra ríkja.
Sé umsókn um hæli hafnað er viðkomandi fluttur aftur til Tyrklands. Hefst brottflutningur til Tyrklands mánudaginn 4. apríl.
Fyrstu tyrknesku embættismennirnir komu til Grikklands mánudaginn 21. mars. Það er í þeirra höndum að ákveða hverjir verða fluttir til baka til Tyrklands hefur þýska fréttastofan DPA eftir grísku strandgæslunni.
ESB hefur lofað að senda 2.300 embættismenn og lögreglumenn til að framkvæma samkomulagið við Tyrki. Enginn á vegum ESB var kominn í þessum tilgangi til Grikklands mánudaginn 21. mars.