Home / Fréttir / Enn mótmæla Bandaríkjamenn glæfraflugi Rússa yfir Eystrasalti

Enn mótmæla Bandaríkjamenn glæfraflugi Rússa yfir Eystrasalti

Rússneskar orrustuþotur af Su-27 gerð sýna listir sínar.
Rússneskar orrustuþotur af Su-27 gerð sýna listir sínar.

Rússnesk orrustuþota flaug hættulega nærri bandarískri herflugvél á alþjóðlegri flugleið yfir Eystrasalti föstudaginn 29. apríl. Bandaríska Evrópuherstjórnin (US EUCOM) í Stuttgart skýrði frá atvikinu. Í tilkynningunni segir að rússnesku vélinni af Su-27 gerð (kölluð Flanker af NATO) hafi verið flogið „á ábyrgðarlausan og ófagmannalegan hátt“ í ekki nema 10 metra fjarlægð frá bandarísku vélinni.

Rússar vísa ásökunum um glæfraflug á bug. „Hér var ekki hættuflug að ræða,“ sagði Vladimir Komojedov, flotaforingi og formaður varnarmálanefndar rússneska þingsins.

Þingmaðurinn segir að bandaríska vélin hafi verið eftirlitsvél af Boeing RC-135 gerð. Hann spurði: „Hvers vegna fljúga Bandaríkjamenn hingað? Er verið að reyna viðbragðskerfi okkar?“ Athygli veki hve Bandaríkjamenn sendi margar flugvélar og skip í átt að landamærum Rússlands. „Vilji menn frið eiga þeir ekki að ögra Rússum á þennan hátt,“ sagði þingmaðurinn við fréttastofuna Interfax.

Þetta er í þriðja sinn á fáeinum vikum sem fréttir berast af ögrunum Rússa við Bandaríkjaher á Eystrasalti. Tvær rússneskar orrustuþotur æfðu árásarflug skammt frá tundurspillinum Donald Cook og síðan var bandarískri eftirlitsvél ögrað eins og nú hefur verið endurtekið.

Heimild: Frankfurter Allgemeine Zeitung

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …