Home / Fréttir / Enn beitir Pútin gasvopninu

Enn beitir Pútin gasvopninu

Rússneska orkufyrirtækið Gazprom ætlar að minnka streymi um Nord Stream 1 gasleiðsluna frá Rússlandi til Þýskalands niður í 20% af flutningsgetu leiðslunnar. Er því borið við að þetta sé nauðsynlegt vegna viðgerða á tækjum.

Þegar tilkynningin barst mánudaginn 25. júlí urðu enn umræður um það í Þýskalandi og innan ESB að hugsanlega lokuðu Rússar alveg á gassölu til Evrópu til að skapa sér sterkari stöðu í stríðinu við Úkraínumenn. Ráðherrar ESB-ríkjanna koma saman í Prag þriðjudaginn 26. júlí til að taka afstöðu til tillagna framkvæmdastjórnar ESB um aðgerðir til að spara gasnotkun innan sambandsins.

Talsmenn þýska efnahagsmálaráðuneytisins segja að „engin tæknileg ástæða“ sé til þess að minnka gasstreymið um Nord Stream 1. Þeir segja að það sé „fyrirsláttur“ Rússa, þetta sé „pólitísk“ ákvörðun til að þrýsta á Vestrið í tengslum við stríðið í Úkraínu.

Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu, túlkar ákvörðun Gazprom á þann veg að Rússar hafi hafið „opið gasstríð gegn sameinaði Evrópu“ og hvetur hann Evrópuríki til að „svara“ með því að herða refsiaðgerðir gegn Rússum.

Rússneskt gas er jafnframt flutt í leiðslum um Úkraínu til vesturhluta Evrópu. Forstjóri úkraínska gasflutningsfyrirtækisins, GTSOU, lýsti mánudaginn 25. júlí áhyggjum yfir því hver þrýstingur í leiðslunni undir hans stjórn ykist hratt á landamærum Rússlands og Úkraínu.

„Þrýstingsbreytingin varð án nokkurrar viðvörunar frá Gazprom,“ sagði í tilkynningu frá GTSOU þar sem jafnframt var varað við að neyðarástand kynni að skapast vegna þessa í leiðslukerfinu.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …