
Sunnudaginn 4. mars fundust karl og kona meðvitundarlaus á bekk skammt frá verslunarmiðstöð í borginni Salisbury á Suður-Englandi. Nú hefur breska lögreglan skýrt frá því að um sé að ræða feðgin, Sergei Skripal (66 ára) og Juliu (33 ára) dóttur hans. Þau eru rússnesk og á sínum tíma njósnaði hann fyrir bresku leyniþjónustuna, MI6, í Rússlandi. Þau eru illa haldin á sjúkrahúsi og leitar lögregla skýringa á hvað kom fyrir þau.
Skripal var á sínum tíma ofursti í GRU, njósnastofnun rússneska hersins. Hann var dæmdur árið 2006 fyrir að lauma ríkisleyndarmálum til Breta en var sleppt og sendur úr landi árið 2010 í skiptum á njósnurum.
Atvikið í Salisbury vakti strax minningar um dauða Aleksanders Litvinenkos, fyrrverandi öryggislögreglumanns í Rússlandi. Hann veiktist og andaðist í London í nóvember 2006 eftir að hafa látið ofan í sig te með geislavirku polonium-210.
Rannsókn breskra yfirvalda leiddi í ljós að rússnesk stjórnvöld stóðu að baki aðförinni að Litvienko og að Vladimir Pútín, forseti Rússlands hefði „líklega samþykkt“ morðið.
Nú segja talsmenn rússneskra yfirvalda að þau hafi „engar upplýsingar“ um atvikið í Salisbury. Talsmaður Pútíns, Dmitríj Peskov, sagði þó þriðjudaginn 6. mars að þetta væri „hörmuleg staða“ og gaf til kynna að yfirvöld í Moskvu væru fús til að vinna með breskum yfirvöldum yrði um það beðið.
Skripal virðist vera einn í hópi nokkurra Rússa sem hafa skyndilega veikst eða dáið í Bretlandi á undanförnum árum. Bresk yfirvöld segja að ekki sé unnt að álykta neitt um að veikindi hans megi rekja til illvirkis.
Lögreglan segist kanna til hlítar hvað kunni að hafa leitt til þess að þessir tveir einstaklingar misstu meðvitund og hvort ástæða sé til að ætla að það stafi af refsiverðum verknaði.
Mark Rowley, yfirmaður gagn-hryðjuverkadeildar bresku lögreglunnar, sagði að lögreglan rannsakaði málið „í ljósi vitneskju um ógnir af hálfu ríkja“.
Hann sagði að rætt væri við vitni. Safnað væri rannsóknargögnum á staðnum. Beitt væri efnagreiningum til að leita svara við því sem gerðist.
Lögregla lokaði 6. mars hluta af miðborg Salisbury fyrir allri umferð á meðan rannsóknarmenn klæddir hlífðarfötum leituðu að einhverju sem gæti upplýst málið. Einn þeirra sem kallaður var til aðstoðar á sunnudaginn er rúmliggjandi í sjúkrahúsi.
Yfirstjórn breska heilbrigðiskerfisins segir að upplýsingar um sjúklingana séu takmarkaðar en ekki séu líkur á að almenningur sé í bráðri hættu vegna atviksins.
Skripal var handtekinn í Moskvu í desember 2004 og dæmdur af herdómstóli þar í ágúst 2006 fyrir „landráð vegna njósna“.
Hann var fundinn sekur um að hafa miðlað upplýsingum til bresku njósnastofnunarinnar MI6, þar á meðal nöfnum rússneskra njósnara sem störfuðu með leynd í Evrópu. Fyrir þetta fékk hann 100.000 dollara í laun.
Rússneska öryggislögreglan, FSB, segir að hann hafi byrjað að vinna fyrir MI6 þegar hann starfaði í hernum á tíunda áratugnum.
Julia Skripal býr í Rússlandi en var í heimsókn í Bretlandi. Í The Guardian segir að greinilega hafi verið eitrað fyrir feðgininum en Liudmila, móðir Juliu, dó árið 2012. Hún kom með eiginmanni sínum til Bretlands árið 2010 og þau bjuggu saman í Wiltshire. Dánarorsök hennar (59 ára) var leghálskrabbamein. Sonur þeirra hjóna (43 ára) dó nýlega í heimsókn með vinkonu sinni í St. Pétursborg.