Home / Fréttir / Engir kærleikar á milli Rússa og ISIS-hryðjuverkasamtakanna

Engir kærleikar á milli Rússa og ISIS-hryðjuverkasamtakanna

Tveir harðstjórar funda: Bashar al-Assad og Vladimir Pútin.

Tilraunir Vladimirs Pútins Rússlandsforseta til að skella skuldinni á Úkraínumenn vegna hryðjuverkaárásarinnar á tónleikagesti í Moskvu að kvöldi föstudagsins 22. mars þykja ekki trúverðugar hjá þeim sem fylgst hafa með framgöngu Rússa í Sýrlandi, Afganistan og Tjestjeníu þar sem þeir hafa beitt sér af hörku gegn íslamistum.

Í The New York Times segir sunnudaginn 24. mars að á undanförnum mánuðum hafi rússneskir hermenn verið við hlið sýrlenska hersins langt inni í torfærum eyðimörkum Sýrlands til að eyðileggja bækistöðvar Ríkis íslams (ISIS), hryðjuverkasamtakanna sem segjast standa að baki blóðugri og miskunnarlausri árásinni í Moskvu.

Þessi hernaður hefur farið fram hjá fjölmiðlum á tímum stríða í Úkraínu og Gaza. Ríki íslams hefur hvað eftir annað um langt skeið hótað að ráðast beint á Rússland fyrir að vera í liði með svörnum óvini samtakanna, Bashar al-Assad Sýrlandsforseta. Nú hefur Ríki íslam staðið við stóru orðin.

Hanna Notte er sérfræðingur í utanríkis- og öryggismálastefnu Rússa við bandarísku hugveituna James Martin Center for Nonproliferation Studies. Notte hefur aðsetur í Berlín og segir Ríki íslams hafa sagt frá árásinni sem eðlilegum lið í viðvarandi átökum ISIS við and-íslamsk ríki. Hryðjuverkamennirnir líti til framgöngu rússneska hersins í Afganistan, Tsjetsjeníu og Sýrlandi.

Í stuttu ávarpi sínu laugardaginn 23. mars vegna hryðjuverksins minntist Pútin ekki á Ríki íslams þegar hann hótaði öllum refsingu sem hefðu átt hlutdeild að því.

Talsmenn forsetans í Kreml sögðu að hann hefði rætt við Bashar al-Assad Sýrlandsforseta um samstarf gegn hryðjuverkum og önnur mál í símtali laugardaginn 23. mars.

Í rússneska ríkissjónvarpinu er ekkert gert með yfirlýsinguna frá ISIS um að samtökin standi að baki hryðjuverkinu. Þess í stað er gefið til kynna að það hafi verið unnið af Úkraínumönnum sem beini síðan athyglinni ranglega að ISIS. Jafnframt er látið að því liggja að vestrænir óvinir Rússlands eigi hlut að máli.  Talsmaður Bandaríkjaforseta ítrekaði í yfirlýsingu laugardaginn 23. mars að ábyrgðin hvíldi á ISIS.

Rússneski flugherinn tók að berjast við hlið hers al-Assads í september 2015. Í október sama ár hvöttu 55 Sádí-klerkar til þess að hafið yrði heilagt stríð gegn Rússum til að refsa þeim fyrir hernaðarlega íhlutun í Sýrlandi. Þeir spáðu því að ósigur Rússa þar yrði svipaður þeim sem þeir máttu þola í Afganistan.

Síðar í október 2015 gekkst ISIS-hópur í Egyptalandi við því að hafa komið fyrir sprengju í leiguflugvél sem flutti rússneska ferðamenn í Egyptalandi heim til St. Pétursborgar í Rússlandi. Vélin sprakk í loft upp yfir Sinaískaga og fórust 224 farþegar hennar og áhöfn. Dmitríj Peskov, talsmaður Pútins, hafnaði því skömmu eftir árásina að tengsl væru á milli hennar og aðgerða rússneska hersins í Sýrlandi.

Skömmu síðar gaf ISIS út áróðursmyndband með sönglagi á rússnesku þar sem kór syngur: „Bráðlega, mjög bráðlega, flæðir blóð eins og haf.“ Í söngtextanum er einnig gefið til kynna að múslímar muni aftur ná undir sig svæðum í Rússlandi þar sem um 20 milljón múslíma eru fjölmennir, þar á meðal í Kákasus, Tatarstan og á Krímskaga.

Rússar hafa orðið illilega fyrir barðinu á grimmd múslíma á þessari öld, einkum vegna öfgamanna meðal Rússa sjálfra. Þeir hafa ráðist á skóla, leikhús í Moskvu, samgöngumiðstöðvar og önnur skotmörk. Mörg hundruð Rússa hafa týnt lífi vegna aðgerða þeirra.

Í The New York Times er rætt við Colin P. Clarke, sérfræðing í hryðjuverkavörnum við The Soufan Center í New York. Hann segir að vegna þess hve rússnesk stjórnvöld hafi leyft mörgum múslímum að fara úr landi sé rússneska nú töluð af næstflestum vígamönnum innan ISIS þar sem arabíska sé mest notuð.

Eftir að hafa skoðað myndbönd frá árásinni í Moskvu 22. mars segir Clarke að svo virðist sem vígamennirnir fjórir séu vel þjálfaðir. Hann telur að þeir hafi hlotið þjálfun í stöð ISIS í Afganistan og verið sendir til Rússlands.

„Þetta var ekki árás sem einhverjir æstir öfgastrákar gerðu að eigin frumkvæði,“ segir Clarke. „Þetta var ekki fyrsti samleikur þeirra – það sést á því hvernig þeir skutu, á svigrúminu sem þeir gáfu hver öðrum og hvernig þeir hreyfðu sig.“

ISIS-deildin sem sagðist ábyrg fyrir árásinni í Moskvu föstudaginn 22. mars er kölluð ISIS-K. Hún varð til meðal andstæðinga Talibana í Afganistan og stendur K fyrir Khorsan-hérað, sem myndað er af landshlutum í Afganistan, Pakistan, Íran og Turkmenistan.

 

Heimild: The New York Times

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …