Home / Fréttir / Enginn útilokar brexit-samning á lokametrunum

Enginn útilokar brexit-samning á lokametrunum

Michel Barnier
Michel Barnier

Verður að lokum brotist út úr skaflinum í Evrópu í dag, 15. október, aðeins tveimur vikum áður en kemur að brexit? Frakkar hafa nú þennan þriðjudag fagnað „jákvæðum skriði“ í viðræðum ESB og Breta. Þeir „vonast eftir samningi í kvöld“ það er tveimur dögum fyrir ESB-leiðtogaráðsfundinn á fimmtudag og föstudag, kemur fram hjá embættismanna franska forsetans.“

Þannig hefst frétt á vefsíðu franska blaðsins Le Figaro um miðjan þriðjudaginn 15. október.

„Hugsanlega verður samið, það viðurkenna allir. Við vonum að samningur verði gerður en við vitum það ekki enn“ segir ráðgjafi í frönsku forsetahöllinni við blaðið. Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, segist „hóflega bjartsýnn“.

Barnier hefur að sögn Reuters-fréttastofunnar lýst þeirri skoðun á fundum sendiherra ESB-ríkjanna 27 að þrír kostir séu í stöðunni varðandi brexit: samningur við Breta að kvöldi 15. október; ný dagsetning varðandi brottför Breta úr ESB í stað 31. október eða „slit“ viðræðnanna.

Takist ekki að ná öllum endum tæknilega og lögfræðilega saman að kvöldi 15. október þannig að unnt verði að leggja skjöl fyrir leiðtogaráðið er ekki útilokað að viðræðum verði haldið áfram eftir leiðtogaráðsfundinn og boðað til aukafundar fyrir 31. október.

Breska þingið hefur verið kallað saman til aukafundar laugardaginn 19. október til að ræða niðurstöðu leiðtogaráðsfundarins.

Meginágreiningsefnið er enn sem fyrr hvernig hátta skuli samskiptum Írska lýðveldisins og Norður-Írlands sem er hluti Bretlands eftir úrsögnina. Breska stjórnin kynnti fyrir helgi tillögur um það efni sem stuðla að lausn þess ágreinings.

Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði þriðjudaginn 15. október að ekki mætti gleyma því að eftir brexit yrðu Bretar „nýir keppinautar við dyr Evrópu“. Af því leiddi að ESB-þjóðirnar yrðu að efla samkeppnishæfni sína og axla geopólitíska ábyrgð.

„Ég vona að samið verði en fyrir Hollendinga er ákaflega mikilvægt að ekki verði um ósanngjarna samkeppni að ræða frá aðilum utan ESB sem misnota landamærin á Írlandi. Bretar hafa gripið til ákveðinna aðgerða en ekki nægilegra til að tryggja heilleika sameiginlega markaðarins,“ segir Stef Blok, utanríkisráðherra Hollands.

Antti Rinne, forsætisráðherra Finna, sem fer með pólitíska forystu í ráðherraráði ESB, segir að viðræður við Breta kunni að halda áfram eftir leiðtogaráðsfundinn. Það sé ekki raunhæft að unnt verði að ganga frá öllum lausum endum á næstu klukkustundum. Með vísan til þessara orða útiloka menn ekki annan leiðtogaráðsfund fyrir 31. október.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …