
Horst Seehofer, leiðtogi Kristilega sósíalflokksins í Bæjarlandi, hefur áður átt í útistöðum við Angelu Merkel, kanslara og leiðtoga Kristilega demókrataflokksins (CDU), vegna útlendingamála. Deilur þeirra nú vekja ótta um framtíð stjórnar CDU/CSU og Jafnaðarmannaflokksins (SPD) vegna þess að Seehofer er innanríkisráðherra og hótar að fara sínu fram án tillits til óska Merkel sem leiðir að óbreyttu til stjórnarslita strax mánudaginn 18. júní.
Þýska fréttastofan Deutsche Welle velti laugardaginn 16. júní fyrir sér kostum í stöðunni:
Málamiðlun
Deilan stendur um áætlun sem Seehofer vildi kynna þriðjudaginn 12. júní en Merkel brá fyrir fæti á elleftu stundu vegna þess að eitt atriði í henni af 63 – um að vísa hælisleitendum á brott við þýsku landamærin – brjóti gegn samningum ESB og yrði mjög erfitt í framkvæmd.
Seehofer gæti einfaldlega fellt þetta atriði úr áætluninni sem yrði hvort sem er til að sýna hvað hann vill ná fram í ráðuneyti sínu.
Um tíma leit út fyrir að CSU drægi í land. Þýska fréttastofan DPA skýrði frá því í vikunni að CSU-menn hefðu boðið tvær málamiðlanir að kvöldi miðvikudags 13. júní – báðar snertu brottvísun hælisleitenda við landamærin – með því fororði að ákvörðunin yrði endurskoðuð eftir fund leiðtogaráðs ESB 28. og 29. júní.
Merkel hafnaði þessum hugmyndum. Fyrir hana skiptir mestu að skapa sér svigrúm og tíma fram yfir leiðtogaráðsfundinn – gangi hann að hennar óskum geti hún virt alþjóðlegar skuldbindingar en jafnframt komið til móts við hægri væng ríkisstjórnar sinnar.
Seehofer fer eigin leiðir
Í samtölum við fjölmiðlamenn segja CSU-menn að Merkel verði að taka ákvörðun mánudaginn 18. júní. Náist ekki samkomulag, segja þeir, muni Seehofer einfaldlega beita valdi sínu sem innanríkisráðherra. Hann fer með yfirstjórn sambands-lögreglunnar og þar með landamæravörslunnar.
Einhliða ákvörðun Seehofers mundi hins vegar kalla á nýjan vanda því að Merkel á sem kanslari síðasta orðið og getur í krafti stjórnskipunarlaga tekið fram fyrir hendur Seehofers.
Seehofer biðst lausnar eða er rekinn.
Komi til áreksturs milli kanslarans og innanríkisráðherrans, flokksleiðtoganna tveggja, og Merkel setur Seehofer stólinn fyrir dyrnar sýnist næsta skref vera afsögn eða brottrekstur innanríkisráðherrans.
Stjórnmálaskýrendur eru sammála um að þar með yrðu stjórnarslit og einnig endanlegt rof milli CDU og CSU. Kæmi til þess kynni CDU að bjóða fram eigin lista í Bæjarlandi í næstu kosningum. Afleiðing þess gæti orðið að CSU breyttist í héraðsflokk í Bæjarlandi og hætti að skipta máli á sambandsþinginu í Berlín. Þeir sem varpa þessu fram segja einnig að þróun í þessa veru sé í raun óhugsandi í sögulegu ljósi en allt geti þó gerst.
Merkel óskar Bundestag eftir traustyfirlýsingu
Merkel á einnig þann leik í stöðunni að snúa sér til neðri deildar þýska þingsins, Bundestag, og láta þannig reyna á hollustu þingmanna CDU og jafnframt SPD. Líklegt er talið að stuðningur sé mestur við Merkel innan SPD um þessar mundir. Tapi hún í þessari atkvæðagreiðslu er stjórn Merkel fallin.
Framkvæmdastjórn CDU stendur sameinuð að baki kanslaranum sagði Daniel Günther, forsætisráðherra Slesvík-Holstein við dagblaðið Neue Osnabrücker Zeitung.
DW segir að hrægammar séu þó á ferð innan CDU: Jens Spahn, heilbrigðisráðherra og harðasti gagnrýnandi Merkel innan flokksins, sat ekki fund þingflokks CDU í Bundestag og var sá eini í framkvæmdastjórn CDU sem greiddi atkvæði gegn málamiðlunartillögu Merkel.
Kanslaranum er ekki hagstætt að Spahn er í góðu sambandi við Alexander Dobrindt, þingflokksformann CSU, og Christian Lindner, formann Frjálsra demókrata (FDP), flokksins sem neitaði að fara í stjórn með Merkel haustið 2017. Þeir vilja allir þrír að þýsk stjórnvöld móti harðari stefnu í útlendingamálum. Talið er að þetta þríeyki nýfrjálshyggjumanna fylli tómarúm sem myndast hverfi Merkel úr forystu.
.