
Vladimir Pútín Rússlandsforseti og Emmanuel Macron Frakklandsforseti hittust á fundi í Versölum mánudaginn 29. maí. Fréttaskýrendur segja að fundur þeirra hafi ekki breytt neinu í opinberum samskiptum ríkjanna sem séu áfram við frostmark. Macron hafi reynt að styrkja stöðu sína á alþjóðavettvangi en Pútín haldið að sér höndum.
„Þótt meira hafi áunnist en flestir væntu var andrúmsloftið frekar kalt á fundinum,“ sagði Tatiana Stanovaja. Hún er sérfræðingur í París við Stofnun um nútíma Rússland og sagði við þýsku fréttastofuna DW að „hvorki Vladimir Pútín né Emmanuel Macron hafi viljað fara í saumana á umdeildum málum“. Hún sagði að svigrúm forsetanna til að hreyfa sig í málum sem snerta Sýrland, Úkraínu og viðskiptaþvinganir Vesturlanda væri „mjög takmarkað“. Svo virðist sem erfitt sé fyrir ráðamenn Rússlands og Frakklands að nálgast.
Bent er á að heimsókn Pútíns til Parísar hafi verið óvenjuleg í ýmsu tilliti. Það var ekki fyrr en viku fyrir komu Pútíns sem skýrt var frá ákvörðun Rússlandsforseta um að þiggja boð Macrons. Frá því að Rússar innlimuðu Krímskaga í mars 2014 hefur Pútín sjaldan ferðast til Vestur-Evrópu þó hefur hann lagt leið sína til Frakklands.
Haustið 2016 bar hins vegar svo við að Pútín hætti við að fara til Parísar, mörgum til undrunar. Sagt var að það væri vegna spennu í samskiptum hans við François Hollande, þáv. Frakklandsforseta. Hollande ákvað eftir innlimun Krímskaga að hætta við að selja Rússum tvö þyrlumóður- og landgönguskip af Mistral-gerð. Seldu Frakkar þau til Egyptalands.
Forsagan jók áhuga á þessari Frakklandsferð Pútíns. Macron ákvað að taka á móti Pútín í konungshöllinni í Versölum en ekki Elysée-forsetahöllinni í hjarta Parísar. Rússneskir fjölmiðlamenn sögðu að í þessu fælist sérstakur heiður enda hefðu Frakklandskonungar búið í Versölum. Opinber skýring Frakka var að í Versölum mætti sjá sýningu helgaðri Pétri mikla Rússakeisara en í ár eru 300 ár frá því að hann heimsótti París og kom á stjórnmálasambandi landanna.
Þýska DW-fréttastofan vitnar í sérfræðing við rússneska hugveitu með tengsl við rússnesk stjórnvöld sem segir að ekkert sérstakt hafi gerst á fundi forsetanna, markmið þeirra hafi frekar verið að kynnast en leysa ágreiningsmál.
Rússar vissu að Macron hafði gagnrýna afstöðu til Rússa. Þá hafði Pútín tekið á móti Marine Le Pen, keppinauti Macrons, í Moskvu í von um að styrkja stöðu hennar í kosningabaráttunni. Rússneskur banki hefur fjármagnað starfsemi Þjóðfylkingarinnar, flokks Le Pen.
Þegar Pútín kom á sínum tíma til Frakklands og minntist með öðrum landgöngu bandamanna í Normandí varð til svonefndur Normandí-hópur um málefni Úkarínu sem leiddi til samkomulagsins sem kennt er við Minsk í Hvíta-Rússlandi þar sem hópurinn hittist til að leggja grunn að vopnahléi í Úkraínu. Auk Frakka og Rússa eru Þjóðverjar og Úkraínumenn í hópnum.
Stanovaja telur grundvallarmun á Hollande og Macron, Hollande hafi haldið að sér höndum á alþjóðavettvangi en Macron vilji að Frakkar láti að sér kveða þar. Eftir fundinn með Pútín tilkynnti Macron að stofnað yrði til vinnuhóps um Sýrland og unnið að því að efla tengsl við samtök almennings í Rússlandi.
Hún telur að Macron verði erfiðari samstarfsaðili fyrir Pútín en Hollande var. Franski forsetinn átti sig á að Frökkum sé nauðsyn að vinna með Rússum vegna sameiginlegrar hættu af hryðjuverkum. Þetta muni ekki leiða til bættra samskipta. Hætta sé á að þau kólni enn frekar.
Macron sýndi nýju hliðina á afstöðu Frakka undir lok blaðamannafundar síns með Pútín. Rússneskur blaðamaður spurði Macron hvers vegna fulltrúar rússnesku fréttamiðlanna RT og Sputnik hefðu ekki fengið að heimsækja kosningaskrifstofur hans. Í kosningabaráttunni sakaði Macron rússnesku miðlana um að ófrægja sig.
Macron stóð við hlið Pútíns og sagði að bæði RT og Sputnik hefðu hagað sér eins og „málpípur, áróðursmálgögn og lygaáróðursmálgögn“. DW hefur eftir rússneskum viðmælanda sínum að menn geti talað svona í kosningabaráttu en mjög óvenjulegt sé að sá sem gegni forsetaembætti geri það. Haldi Macron fast í þessa „átakastefnu“ í samskiptum við Rússa geti það vissulega spillt samskiptum við Pútín.
Stanovaja segir að vegið hafi verið mjög persónulega að Macron. Finni Rússar ekki leið til að bæta fyrir þetta geti þeir ekki vænst þess að nýr Frakklandsforseti sýni þeim miskunn.
Heimild: dw.de