Home / Fréttir / Engin föst viðvera NATO-herafla í Póllandi þrátt fyrir ítrekaðar óskir frá Varsjá

Engin föst viðvera NATO-herafla í Póllandi þrátt fyrir ítrekaðar óskir frá Varsjá

 

Pólski varnarmálaráðherrann lengst til vinstri og formaður hermálanefndar NATO lengst til hægri.
Pólski varnarmálaráðherrann lengst til vinstri og formaður hermálanefndar NATO lengst til hægri.

Bandaríkjamenn og Þjóðverjar segja afdráttarlaust að NATO muni ekki setja upp nýjar herstöðvar í Póllandi og bera fyrir sig herfræðileg og stjórnmálaleg rök.

James Townsend, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í Bratislava í Slóvakíu föstudaginn 15. apríl: „Innan NATO ræða menn ekki um að koma upp herstöðvum … við viljum aukna viðveru en án herstöðva, herstöðva, herstöðva.“

Í Bratislava var efnt til svonefndrar Globsec-ráðstefnu og lét Townsend þessi orð falla eftir að Witold Waszczykowski, utanríkisráðherra Póllands, sagði að hann vildi „viðveru, viðveru, viðveru og enn og aftur viðveru“ herafla undir merkjum NATO sen bæri með sér „vilja og getu til að verja austurvænginn“.

Hér er stuðst við frásögn eftir Andrew Rettman hjá EUobserver af því sem gerðist á Globsec-ráðstefnunni 15. til 17. apríl.

Urslua von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, talaði á ráðstefnunni og sagði að fælingarstefna NATO gegn Rússum „snerist ekki um fasta viðveru heldur um þaulhugsaðan hreyfanleika“.

Hún sagði að nýja hraðskreiða viðbragðslið NATO dugi til að tryggja að Rússar „ættu ekki einu sinni að hugsa um að reyna“ árás á Pólland eða eitthvert Eystrasaltsríkjanna.

Varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna ákváðu í febrúar 2016 að í stað fastrar viðveru í nýjum herstöðvum skyldi herafli stöðug vera á ferð frá einu landi til annars á austurvæng NATO, allt frá Eistlandi til Búlgaríu. Þá hafa Bandaríkjamenn ákveðið að flytja ný þungavopn á þetta svæði með fjórföldun útgjalda til Evrópuhers síns á árinu 2017

Waszczykowski bað hins vegar um meira í Bratislava og vísaði meðal annars til leiðtogafundar NATO í Varsjá í júlí 2016:

„Við væntum ákvarðana sem breyta stöðu öryggismála á þessu svæði. Þótt við séum aðilar að sömu stofnuninni [NATO] er staðan ekki alls staðar sú sama – hún er betri í vestri en á hinum svonefnda austurvæng. Hér hefur enginn her fasta viðveru, NATO á engin hernaðarmannvirki. Við væntum breytinga á þessu á NATO-leiðtogafundinum.“

Bandaríkjamenn hafa ákveðið að 4.000 hermenn frá sér verði í hraðskreiðu viðbragðsliði NATO og þeir fari á milli landa á austurvængnum, dveljist í nokkra mánuði í hverju landi í flytjanlegum stöðvum. Samhliða þessu hafa bnadarískir skriðdrekar verið fluttir í vopnabúr skammt frá rússnesku landamærunum.

Petr Pavl, hershöfðingi frá Tékklandi, formaður hermálanefndar NATO, sagði að nýjar herstöðvar kynnu að hafa „pólitískan fælingarmátt“ en þær hefðu litla þýðingu hernaðarlega. Hann sagði hugmyndir um nútíma hernað ekki reistar á „föstum línum risavöxnum stálveggjum“ þær snerust um „hreyfanleika og getu til að beita valdi á ólíkum svæðum og á mismunandi stigum“.  Með því að reisa varanlega herstöð fjölguðu menn aðeins skotmörkum andstæðingsins um eitt.

Townsend hafnaði því sjónarmiði Rússa að eftir kalda stríðið hefði verið samið um að NATO héldi sig í hæfilegri fjarlægð frá Rússlandi.

„Ég veit ekki til þess að nokkurt samkomulag hafi verið gert við þá um skipan herafla NATO fyrir utan það sem segir í grundvallarsamningi NATO og Rússa,“ sagði hann.

Í þessum samningi frá 1997 segir að NATO muni forðast að frekari fjölgun í bardagasveitum sem hafi fasta viðveru nálægt Rússlandi „miðað við núverandi stöðu öryggismála“.

Þýski varnarmálaráðherrann sagði að Rússar hefði einhliða „sagt skilið“ við samninginn með innrás sinni í Úkraínu. NATO ætti hins vegar „að standa við skuldbindingar sínar“. Með því sýndi bandalagið siðferðilega yfirburði sína.

Pavl sagði að NATO legði sig pólitískt fram um að stigmagna ekki ástandið. „Við látum mjög lítið fyrir okkur fara. Lið okkar ógnar ekki. Við reynum ekki að flytja umtalsverðan herafla að landamærunum [rússnesku]“

Ursula von der Leyen sagði: „Rússar eru ekki óvinir okkar en þeir eru ekki lengur samstarfsfélagar okkar.“ Hún varði þá afstöðu Vesturlanda að hafa ekki lagt Úkraínumönnum hernaðarlegt lið „að öðrum kosti hefði orðið blóðugt stríð í Úkraínu“. Hún bætti við:

„Rússar eru veikastir fyrir í efnahagsmálum … svo að við svöruðum með því að þrýsta á þennan aumasta blett til að opna augu þeirra,“ sagði hún og vísaði til efnahagsþvingana gagnvart Rússum.

Ian Brzezinski, sem var einn af ráðgjöfum Donalds Rumsfelds varnarmálaráðherra á sínum tíma, sagði við Andrew Rettman frá EUobserver að ummæli Von der Leyen myndi „minnka baráttuþrek“ Úkraínumanna en rúmlega 9.000 þeirra hefðu fallið í stríðinu. Brzezinzki er nú sérfræðingur við hugveituna Atlantic Council í Washington. Hann spáði því að Rússar myndu grípa til hernaðarlegra ögrana fyrir NATO-leiðtogafundinn í Varsjá.

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …