Home / Fréttir / Engin áform ríkisstjórnar Finnlands um viðurkenningu á sjálfstæði Katalóníu

Engin áform ríkisstjórnar Finnlands um viðurkenningu á sjálfstæði Katalóníu

Timo Soini, utanríkisráðherra Finna.
Timo Soini, utanríkisráðherra Finna.

Timo Soini, utanríkisráðherra Finna, sá ástæðu til þess föstudaginn 27. október að tilkynna að finnsk stjórnvöld styddu ekki sjálfstæði Katalóníu.

Ástæðan var sú að Mikko Kärnä, þingmaður finnska Miðflokksins, sagði á Twitter skömmu eftir að þing Katalóníu samþykkti að lýsa yfir sjálfstæðu lýðveldi að hann styddi niðurstöðuna. Birtu ýmsir erlendir miðlar frétt um að þetta endurspeglaði afstöðu finnskra stjórnvalda sem kynnu að verða fyrst til að viðurkenna sjálfstæða ríkið.

Mikko Kärnä áformar að leggja fram tillögu í finnska þinginu um að Finnar verði fyrstir til að viðurkenna sjálfstæði Katalóníu. Timo Soini utanríkisráðherra er andvígur hugmyndinni og hefur gagnrýnt framgöngu ráðamanna í Katalóníu og hvatt til að þeir og stjórnvöld í Madrid gangi fram af varúð.

Soini segir að lýðræði og virðing fyrir lögum og rétti ráði á Spáni. Það beri að virða stjórnarskrá landsins og innan ESB standi menn að baki stjórninni í Madrid.

Miðflokksþingmaðurinn Mikko Kärnä hefur verið hávær stuðningsmaður þeirra sem berjast fyrir sjálfstæði Katalóníu frá Spáni. Pertti Pesonen, fréttaritari finnska ríkisútvarpsins YLE í Barcelona, sagði að orð þingmannsins á Twitter hefðu farið eins og eldur um sinu um borgina. Tugir þúsunda hefðu deilt þeim á netinu.

Þá var fullyrt í erlendum fjölmiðlum eins og The Express í London að finnsk stjórnvöld ætluðu að „snúast gegn Spáni“ og viðurkenna sjálfstæði Katalóníu.

Timo Soini utanríkisráðherra hafnaði öllum fullyrðingum í þessa veru. Þegar hann var spurður hvort finnska stjórnin mundi viðurkenna sjálfstæða Katalóníu svaraði hann afdráttarlaust: „Nei, það gerir hún ekki.“

Soini segir að ekki sé allt sem sýnist í Evrópu: „Það fer einskonar uppreisnarbylgja um héruð. Þetta gerist alls staðar í löndum og héruðum þar sem hlutirnir ganga betur en í grunnlandinu sjálfu. Svona hreyfing er til dæmis í norðurhluta Ítalíu.“

Nú ættu allir viðkomandi að játast friði og forðast ofbeldi. Hann sagði á Twitter: „Við styðjum spænsku ríkisstjórnina heilshugar í viðleitni hennar í þágu sameiningar, lýðræðis og virðingar fyrir lögunum.“

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …