Home / Fréttir / Engar fréttir af 510 manna áhöfn beitiskipsins Moskvu

Engar fréttir af 510 manna áhöfn beitiskipsins Moskvu

Við ninnisvarða um óþekkta sjóliða í Sevastopol á Krímskaga var föstudaginn langa 2022 lagður krans til minningar um beitiskipið Moskvu og áhöfn þess.

Talið er að hundruð sjómanna hafi drukknað eða farist af völdum sprenginga og elds um borð í flaggskipi rússneska Svartahafsflotans, beitiskipinu Moskvu, þegar úkraínskar skotflaugar grönduðu því fimmtudaginn 14. apríl. Fréttir herma að aðeins nokkrir tugir manna úr 510 manna áhöfninni hafi bjargast.

Tæpur sólarhringur leið frá árás á skipið aðfaranótt 14. apríl þar til rússneski herinn viðurkenndi að djásn Svartahafsflotans hefði sokkið. Þá var fyrsta tilkynning hersins á þann veg að kviknað hefði í skipinu og það hefði sokkið þegar verið var að draga það í land.

Frá því að þetta var tilkynnt hafa Bandaríkjamenn staðfest að skipið hafi orðið fyrir tveimur árásum Úkraínumanna sem eru taldir hafa notað Neptune-flaugar sem smíðaðar eru til árása á skip.

Skömmu eftir að herstjórn Rússa skýrði frá því að skipið hefði sokkið viðurkenndu stjórnvöld í Kreml að Moskva væri ekki lengur ofan sjávar en sögðu að rekja mætti það til „erfiðs sjólags“ þegar skipið var í togi á leið til lands.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði fimmtudaginn 14. apríl að tekist hefði að bjarga öllum í 510 manna áhöfn skipsins og hefðu skipverjarnir verið fluttir til heimahafnar í Sevastopol á Krímskaga.

Ríkisfréttastofan TASS fullyrti upphaflega að „allri áhöfninni“ hefði verið bjargað. Í seinni útgáfu fréttarinnar var orðinu „allri“ sleppt.

Tæpum tveimur dögum síðar sést þó ekki til neins skipverja á lífi.

Komi í ljós að meirihluti áhafnarinnar hafi farist kann þetta að reynast mannskæðasta tjón rússneska hersins í einu atviki frá því í síðari heimsstyrjöldinni.

Óvenjulegt þykir að rússneska ríkissjónvarpið skuli ekki sýna eina einustu mynd af því þegar skipverjar beitiskipsins koma á heimaslóð sína.

Nokkrir tugir manna komu hins vegar saman til minningarstundar á miðtorgi Sevastopol síðdegis föstudaginn 15. apríl. Við minningarstein um rússneska sjóliða hafði verið lagður útfararkrans með borða þar sem á stóð: „Vegna Moskvu og áhafnar“.

Arvydas Anusauskas, varnarmálaráðherra Litháens, sagði að það hefði að minnsta kosti tekist að bjara 54 um borð í tyrkneskt skip eftir að neyðarkall barst frá beitiskipinu snemma morguns fimmtudaginn 14. apríl. Ekki er vitað hvað varð um þessa skipverja.

Klukkan 01.14 að staðartíma fimmtudaginn 14. apríl lagðist Moskva á hliðina og um hálftíma síðar „slokknaði á öllu rafmagni“ sagði Anusauskas á Facebook.

Föstudaginn 15. apríl sagði embættismaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins að þar á bæ teldu menn marga hafa farist um borð í skipinu en vildu ekki segja neitt meira.

Kortið á að sýna hvar beitiskipið Moskva sökk.

 

Embættismenn Úkraínustjórnar fullyrða að ekki hafi tekist að bjarga neinum, meðal hinna látnu sé skipherra Moskvu, yfirmaður rússneska Svartahafsflotans, Anton Kuprin.

„Við sáum að reynt var að aðstoða þá frá öðrum skipum en meira að segja náttúruöflin voru hliðholl Úkraínu, vegna stormsins var hvorki unnt að bjarga áhöfninni né gat hún komist frá borði,“ sagði Natalia Gumeniuk, upplýsingafulltrúi suður herstjórnar Úkraínu á fundi föstudaginn 15. apríl.

Anton Gerashchenko, ráðgjafi innanríkisráðuneytisins í Kyív, fullyrti 15. apríl að sprengingin hefði verið svo öflug að „flaggskip Svartahafsflotans sökk á nokkrum mínútum“.

Gerashchenko er vel tengdur stjórnmálamaður í Kyív. Hann kveður stundum fastar að orði en unnt sé að sannreyna, segja fjölmiðlamenn. Nú segir hann:

„Yfirstjórn Svartahafsflota Rússneska sambandsríkisins hefur af ásetningi falið sannleikann fyrir vandamönnum og vinum áhafnarinnar. Allir um borð í beitiskipinu Moskvu fórust.“

Af hálfu Kremlverja hefur ekkert verið sagt um manntjón. Sömu sögu er að segja um starfsmenn Svartahafsflotans og ráðamenn í Sevastopol, þeir minnast ekki á mannfall.

Kursk-fordæmið

Vegna opinbera feluleiksins í kringum örlög beitiskipsins Moskvu minnast menn þagnarinnar í Kreml þegar kafbáturinn Kursk fórst í ágúst 2000. Þótti framganga stjórnvalda þá meiriháttar hneyksli fyrir Vladimir Pútin sem nýlega hafði tekið við forsetaembættinu.

Kjarnorkukafbáturinn sökk í Barentshafi eftir að tundurskeyti sprakk í skotrauf hans. Flestir af 118 manna áhöfn kafbátsins dóu samstundis en 23 skipverjar biðu í hólfi sem var hálf-fullt af sjó eftir björgun sem barst aldrei.

Pútin naut sólar á baðströnd í nokkra daga áður en hann fór á slysstaðinn. Síðar kom í ljós að rússnesk yfirvöld höfnuðu boði um alþjóðlega aðstoð. Liðu níu ár þar til breskir og norskir kafarar komust niður að Kursk og fundu lík áhafnarinnar.

Ekkjur skipverjanna létu árið 2000 í ljós mikla sorg og reiði sem beindist af þunga gegn Pútin. Í rússneskum fjölmiðlum sætti Pútin harðri gagnrýni en blaðamenn sættu ekki ritskoðun á þessum tíma.

Pútin skaut sér undan ábyrgð, hörmulegt ástand hersins mætti rekja til Sovétstjórnarinnar. Hann brást einnig illa við gagnrýni fjölmiðla. Vinsældir hans minnkuðu umtalsvert eftir Kursk-slysið og hóf hann þá aðför að sjálfstæðum sjónvarpsstöðvum sem höfðu mikil áhrif á þessum árum.

Minnt er á að rússneski flotinn hafi notið sérstakrar velvildar Pútins og þess vegna séu örlög beitiskipsins Moskvu sárari en ella fyrir hann. Þegar Pútin innlimaði Krímskaga var honum sérstakt kappsmál að tryggja að nýju rússnesk yfirráð í Sevastopol og höfninni þar.

Heimild: The Telegraph

Skoða einnig

Jevgeníj Pirogsjin.

Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Jevgeníj Prigosjín, foringi alræmdu Wagner-málaliðanna, hefur opinberlega hafnað lykilatriðum í útlistun Kremlverja á tilefni stríðsins …