Höfundur Kristinn Valdimarssson
Á síðustu árum hafa kínversk stjórnvöld eytt háum fjárhæðum í að endurskipuleggja herafla landsins. Leiðtogi Kína, Xi Jinping, á sér þann draum að árið 2035 verði heraflinn í fremstu röð í heiminum og geti þá unnið Bandaríkjaher í átökum.
Að sögn breska vikuritsins The Economist hafa endurbætur á heraflanum skilað talsverðum árangri á undanförnum árum. Kínverjar hafa verið að þróa ýmis hátæknivopn en skipulagsbreytingar á heraflanum skipta þó ekki síður máli. Á tímum kalda stríðsins var markmið stjórnvalda í Peking að halda úti fjölmennum landher. Honum var ætlað að hrinda innrás Bandaríkjanna eða Sovétríkjanna í landið en í dag eru litlar líkur á þess háttar átökum. Þess í stað á kínverski herinn nú að geta háð afmarkaða hátæknistyrjöld, eins og það er orðað, t.d. við Taívani. Eigi þeim að takast þetta verður að auka samhæfni innan heraflans.
Í herfræði kallast þetta á ensku jointness og gengur út á að landher, flugher og floti vinni snuðrulaust saman. Fyrirmynd Kínverja í þessum efnum er Bandaríkjaher sem hóf að endurskipuleggja sig með þessum hætti á níunda áratugnum. Eitt af því sem Bandaríkjamenn gerðu var að koma á fót herstjórnum sem báru ábyrgð á tilteknum heimshlutum og skyldi landher, flugher og floti innan hvers herstjórnarsvæðis lúta sömu yfirstjórn.
Nú hafa Kínverjar skipulagt herinn með svipuðum hætti en árið 2016 var fimm herstjórnum komið á fót í landinu sem hver um sig ber ábyrgð á hluta af Kína og hernaðaráætlunum er tengjast því svæði. Þannig velta herforingjar austursvæðisins fyrir sér átökum við Taívan og Japan, þeir í suðursvæðinu horfa til Suður – Kínahafs og ráðamenn á Vestursvæðinu hafa hugann við Indland og nálæg ríki.
Auk þessara fimm landfræðilegu herstjórna hafa Kínverjar komið tveimur öðrum á laggirnar. Annars vegar er um að ræða tölvuárásarsvið og hins vegar eldflaugaflota. Með því að efla þessi svið telja Kínverjar að þeir gætu komið höggi á Bandaríkjamenn kæmi til átaka því þeir síðarnefndu treysta á gervihnetti til að hafa stjórn á herafla sínum og herstöðvar og flotadeildir sem eldflaugar gætu laskað. Umbætur á kínverska hernum snúast einnig um að fækka í honum og gera heraflann skilvirkari. Landherinn hefur orðið fyrir mestum niðurskurði. Eitt sinn tilheyrðu yfir 70% þeirra sem voru í heraflanum honum en nú er sú tala komin undir 50%.
Erfitt er að segja til um hvort breytingarnar sem verið er að gera á kínverska hernum muni skila þeim árangri sem stjórnvöld vonast eftir enda hefur Kínverjar ekki átt í átökum við annað ríki í fjóra áratugi.
Annað sem hefur verið bent á er að auðveldast sé að auka samhæfni ólíkra eininga í herafla þar sem lögð er áhersla á hreinskilni, valddreifingu og samvinnu. Bandaríkjamenn eru vanir slíku fyrirkomulagi en í Kína er annað upp á teningnum. Óljóst er því hvort Xi Jinping, sem leggur mikið upp úr sterku miðstjórnarvaldi, nái fram hernaðarumbótum sínum. Þær hafa þó þegar aukið fagmennsku innan heraflans til muna. Það skýrir hvers vegna margir ungir hermenn styðja umbæturnar heilshugar. Sömu sögu er ekki að segja um þá sem hafa glatað forréttindum sínum vegna breytinganna eða einfaldlega misst vinnuna