
Emmanuel Macron tók við embætti Frakklandsforseta að morgni sunndags 14. maí við hátíðlega athöfn í Elysée-höl. Eftir að François Hollande hafði kvatt Macron fyrir framan höllina var athöfn í hátíðarsal hallarinnar þar sem Laurent Fabius, fyrrv. utanríkisráðherra, forseti stjórnlagaráðsins lýsti Emmanuel Macron forseta Frakklands frá og með þeirri stundu.
Forsetinn flutti ræðu sem hófst á þeim orðum að heimurinn og Evrópa hefði á líðandi stundu meiri þörf fyrir Frakkland en nokkru sinni fyrr, öflugt Frakkland sem kynni að takast á við framtíðina. Heimurinn þarfnaðist þess sem Frakkar hefðu alltaf sýnt honum: hugrekki frelsisins. Hann hét því að sameina þjóðina til nýrra sigra.
Macron sagði að strax að kvöldi sunnudagsins eftir hátíðarhöld vegna embættistöku hans mundi hann einbeita sér að því að vinna fyrir Frakka og Frakkland.
Hann ætlar að tilnefna forsætisráðherra mánudaginn 15. maí og ríkisstjórn þriðjudaginn 16. maí.
Eftir athöfnina í höllinni fór forsetinn út í garðinn fyrir framan hana og vottaði hernum virðingu sína og af hálfu hersins var honum heitin hollusta. Þá var skotið 21 fallbyssuskoti til heiðurs forsetanum.
Emmanuel Macron fer til Berlínar mánudaginn 15. maí til fundar við Angelu Merkel Þýskalandskanslara. Með fundinum áréttar forsetinn mikilvægi samstöðunnar við Þjóðverja í þágu samvinnunnar í Evrópu og Evrópusambandsins. Macron telur nauðsynlegt að breyta starfsháttum og skipulagi innan Evrópusambandsins.
Í júní verður kosið til franska þingsins. Forsetinn sem stofnaði flokk sinn eða stjórnmálahreyfingu fyrir tæpu ári undirbýr nú framboð í 577 kjördæmum. Nú hefur flokkurinn kynnt 428 frambjóðendur og hafa maegir þeirra aldrei fyrr tekið virkan þátt í stjórnmálum. Flokkurinn þarf meirihluta á þingi til að koma stefnumálum sínum í framkvæmd.
Macron boðar breytingar á vinnulöggjöfinni og aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum sem stangast á við stefnu vinstrisinnaðra sósíalista og róttæka vinstri flokksins undir forystu Jean-Lucs Meléchons svo að ekki sé minnst voldug verkalýðsfélög.
Mið-hægri menn í Lýðveldisflokknum vilja skapa þá stöðu að forsetinn verði að semja um framgang mála á þingi.