Home / Fréttir / Emmanuel Macron stefnir í frönsku forsetahöllina

Emmanuel Macron stefnir í frönsku forsetahöllina

Emmanuel Macron veifar til vegfarenda í París.
Emmanuel Macron veifar til vegfarenda í París.

Emmanuel Macron fyrrv. bankamaður sem síðar var efnahagsmálaráðherra í stjórn franskra sósíalista en stofnaði að lokum eigin mið-vinstri flokk, Áfram!, fékk flest atkvæði í fyrri umferð forsetakosninganna í Frakklandi sunnudaginn 23. apríl. Marine Le Pen, frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar, fékk næstflest atkvæði. Þau keppa um forsetaembættið í síðari umferð kosninganna sunnudaginn 7. maí.

Hvorugt sigurvegaranna er fulltrúi hefðbundinna höfuðandstæðinganna í frönskum stjórnmálanna, mið-hægrimanna sem nú berjast undir merkjum Lýðveldisflokksins og Sósíalistaflokksins, flokks François Hollandes, fráfarandi forseta. Að Marcon og Le Pen berjist í síðari umferð kosninganna án þess að þessar tvær höfuðfylkingar  standi að baki öðrum eða báðum frambjóðendum er einsdæmi í síðari tíma stjórnmálasögu Frakklands.

Þegar Emmanuel Marcon (39 ára) kom til stuðningsmanna eftir að kjörstöðum var lokað fögnuðu þeir honum með því að hrópa: Marcon forseti! Hann sagði að „fordæmalaus tími“ hefði nú runnið upp í Frakklandi. Stuðningsmenn sínir hefði breytt gangi sögunnar með því að veita sér brautargengi í síðari umferð kosninganna. Hann mundi ganga til þeirrar umferðar með von og bjartsýni fyrir Frakkland og Evrópu. Hann sagðist mundu berjast fyrir alla borgara landsins gegn þjóðarógninni sem stafaði af Marine Le Pen.

Macron sagði að verkefnið væri að endurbæta stjórnmálakerfið sem hefði mistekist að leysa vanda þjóðarinnar undanfarin 30 ár og skapa nýtt pólitískt landslag í Frakklandi og Evrópu. Hann vildi koma á meirihlutastjórn sem endurnýjaði stjórnmálin og gerði hverjum borgara landsins að verða þátttakandi í nýju samfélagi í Evrópu.

Emmanuel Marcon er eindreginn stuðnings- og talsmaður ESB-aðildar Frakka og evrunnar. Marine Le Pen er andvíg evrunni og vill að Frakkar fái tækifæri til að greiða atkvæði um aðild sína að ESB. Þegar Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands, óskaði Macron til hamingju með sigurinn sagði hann um Macron: „Hann var eini sanni stuðningsmaður Evrópu meðal frambjóðendanna.“

Þjóðernissinninn Marine Le Pen þakkaði „einlægum föðurlandsvinum“ meðal Frakka fyrir að styðja sig til þátttöku í annarri umferð kosninganna. Hún hét því að stöðva straum innflytjenda til landsins og berjast gegn hryðjuverkum. Hún sagði að nú snerist baráttan um stöðva „grimmdarlega hnattvæðingu“. Le Pen sagði: „Það er tímabært að losa frönsku þjóðina undan hrokafullum elítum sem vilja þröngva háttum sínum á hana.“

Þegar François Fillon, frambjóðandi Lýðveldisflokksins (mið-hægri), viðurkenndi ósigur sinn hvatti hann til stuðnings við Emmanuel Macron í síðari umferðinni. „Það er ekki um neinn annan kost að ræða en kjósa gegn Þjóðfylkingunni. Frakkland er nú í ykkar höndum,“ sagði hann við stuðningsmenn sína.

Sósíalistinn Jean-Marc Ayrault, utanríkisráðherra Frakklands, fyrrv. forsætisráðherra, hvatti alla að fylkja sér að baki Emmanuel Marcon. Aðrir frammámenn sósíalista Benoit Hamon, forsetaframbjóðandi þeirra, og Bernard Cazeneuve forsætisráðherra hafa einnig hvatt til stuðnings við Macron.

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …