Home / Fréttir / Emmanuel Macron rauf þögnina vegna öryggisvarðarins

Emmanuel Macron rauf þögnina vegna öryggisvarðarins

Emmanuel Macron og að baki honum Alexandre Benalla.
Emmanuel Macron og að baki honum Alexandre Benalla.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti neitar að biðjast afsökunar fyrir að hafa látið hjá líða að reka öryggisvörð sinn sem réðist á mótmælanda fyrr en sagt var frá árásinni opinberlega.

Macron viðurkennir að hafa vitað, skömmu eftir atburðinn, að vörðurinn, Alexandre Benalla, bar ólöglega hluta af búnaði lögreglumanns þegar hann sló mann við mótmælaaðgerðir í París 1. maí 2018. Hann segist hafa samþykkt að Benalla yrði vikið úr starfi tímabundið. Eftir að myndskeið birtist af atvikinu var Benalla hins vegar rekinn og lögregla hóf rannsókn málsins.

Ráðgjafar Macrons og innanríkisráðherrann hafa verið kallaðir fyrir þingnefndir til að skýra málið. Forsetinn sjálfur er sakaður um að þegja þunnu hljóði í skjóli embættis síns.

Að kvöldi þriðjudags 24. júlí tók Macron þátt í lokuðum fundi með þingflokki sínum en myndskeiði þaðan var lekið til AFP-fréttastofunnar. Þar segist Macron hafa orðið fyrir vonbrigðum með það sem hann lýsir sem „svikum“.

„Leiti þeir að þeim sem ber ábyrgðina, er það ég og enginn annar en ég. Látum þá koma og ná í mig,“ sagði forsetinn.

Vinsældir Macron hafa minnkað verulega síðan skýrt var frá einstökum atriðum atviksins.

Skoðanakönnun gerð af Elabe sýnir að 80% voru „í áfalli“ vegna hneykslisins.

Eftir að fréttir bárust af fundi Macrons með þinflokknum sætti hann gagnrýni stjórnarandstöðunnar fyrir að tala á lokuðum fundi um málið frekar en snúa sér beint til frönsku þjóðarinnar og gera henni grein fyrir málavöxtum.

Atvikið sem er kveikjan að pólitískum vandræðum sem sögð eru mestu síðan Macron varð forseti fyrir rúmu ári gerðist 1. maí á Contrescarpe-torgi í V. hverfi Parísar. Myndskeið af atvikinu birtist ekki fyrr en tveimur og hálfum mánuði síðar á síðu dagblaðsins Le Monde. Frá 18. júlí hefur allt leikið á reiðiskjálfi í frönskum stjórnmálum vegna þess.

Í upphafi var sagt að Alexandre Benalla hefði aðeins fylgst með atburðunum en á myndskeiðinu sést hann umkringdur CRS-lögreglumönnum, óeirðalögreglumönnum. Í fylgd með Benalla var Vincent Crase, varalögreglumaður í starfsliði flokks forsetans, La République en Marhe, sem kom stundum til liðs við forsetaembættið.

Alexandre Benalla var á sínum tíma í sveit öryggisvarða sem starfaði fyrir Sósíalistaflokkinn. Á Contrescarpe-torgi var hann hins vegar með hjálm og andlitsvörn, lögreglukylfu og notaði talstöð – kylfan og talstöðin eru hluti af búnaði lögreglu sem Benalla mátti ekki bera.

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …