Home / Fréttir / Emmanuel Macron kjörinn Frakklandsforseti – vill vinna gegn sundurlyndi

Emmanuel Macron kjörinn Frakklandsforseti – vill vinna gegn sundurlyndi

Emmanuel Macron flytur fyrsta ávarps sitt sem kjörinn forseti.
Emmanuel Macron flytur fyrsta ávarp sitt sem kjörinn forseti.

Emmanuel Macron var kjörinn forseti Frakklands sunnudaginn 7. maí með 65,7% atkvæða. Hann er yngstur manna (39 ára) til að verða þjóðhöfðingi Frakka síðan Napóleon Bonaparte varð keisari Frakklands árið 1804, 35 ára gamall. Fyrir tæpu ári stofnaði Macron stjórnmálahreyfinguna En marche – Áfram! – og sagði skilið við sósíalista og forseta þeirra François Hollande. Emmanuel Macron er 8. forseti fimmta franska lýðveldisins sem kom til sögunnar árið 1958,

Franskir miðjumenn fagna sigri með kjöri Macrons og segja að hann feti í fótspor Valerys Giscards d’Estaings sem var forseti Frakklands 1974 til 1981. Kjör hans sýni að hefðbundna flokkakerfið á milli vinstri og hægri hafi gengið sér til húðar í Frakklandi. Með kjöri Macrons hafi ekki aðeins orðið kynslóðaskipti í frönskum stjórnmálum heldur söguleg uppstokkun í stjórnmálakerfinu.

Marine Le Pan (48 ára), leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, sem hlaut 34,3% atkvæða viðurkenndi ósigurinn sinn 12 mínútur eftir að kjörstöðum var lokað og fyrstu útgönguspár birtust. Í ávarpi til stuðningsmanna sinna sagði hún að Frakkar hefðu ákveðið að halda áfram á sömu braut og áður. Hún sagðist sjá sig sem „helsta andstöðuaflið“ gegn nýkjörnum forseta. Hún sagði einnig að Þjóðfylkingin yrði að endurnýja sig frá grunni. „Ég hvet alla föðurlandsvini til að ganga til liðs við okkur,“ sagði Marine Le Pen. Í þessum kosningum núna hefðu barist föðurlandsvinir og hnattvæðingarsinnar.

Macron hefur lofað að beita sér fyrir breytingum á Evrópusambandinu og stjórnarháttum í Frakklandi. Sigur hans veldur engu að síður létti bæði meðal ráðandi afla innan Evrópusambandsins og í Frakklandi. Hann lofaði ekki byltingu á borð við þá sem Le Pen boðaði.

Rúmlega 21.00 (19.00 að ísl. tíma) ávarpaði Emmanuel Macron frönsku þjóðina frá höfuðstöðvum flokks síns í 15. hverfi Parísar áður en hann hélt að Louvre-höllinni þar sem stuðningsmenn hans fögnuðu fyrir fram an pýramídann sem er inngangur í safnið í höllinni.

Hann færði kjósendum sínum innilegar þakkir og beindi síðan máli sínu til allrar þjóðarinnar. Hann sagði hlutverk sitt létta ótta af fólki að ýta undir bjartsýni og snúa vörn í sókn. Nýr kafli í sögu þjóðarinnar hæfist nú og hann mundi leggja sig allan fram um að sporna gegn sundurlyndi sem hefti framgang þjóðarinnar. Við Louvre-höllinni sagði Macron að hann mundi sjá til þess að Frakkar þyrftu ekki oftar að greiða öfgaflokki atkvæði.

Táknrænt var að Macron skyldi velja pýramídann við Louvre sem bakgrunn sigurræðu sinnar. Þegar François Mitterrand forseti ákvað að þetta mannvirki skyldi rísa við Louvre vakti það gagnrýni og umræður. Nú er litið verkið sem meistarastykki sem fært hefur fortíð, samtíð og framtíð saman.

Einu sinni áður hefur frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar komist í aðra umferð forsetakosninga í Frakklandi. Það var árið 2002 þegar Jean-Marie Le Pen, faðir Mariane, keppti við Jacques Chirac sem sigraði með 82% atkvæða. Hlutfall Þjóðfylkingarinnar hefur því tvöfaldast á 15 árum, hann fékk 4,5 milljón en hún 11 milljón. Jean-Marie Le Pen lýsti dóttur sína nú óhæfa til að verða forseti en stjórnmálasamband þeirra hefur slitnað.

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …