Home / Fréttir / Emmanuel Macron fær hrós fyrir framgöngu í Brussel og Taormina

Emmanuel Macron fær hrós fyrir framgöngu í Brussel og Taormina

Emmanuel Macron og Justin Trudeau í Taormina.
Emmanuel Macron og Justin Trudeau í Taormina.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti (39 ára) hlaut eldskírn sína á alþjóðavettvangi á fundi ríkisoddvita NATO-ríkjanna í Brussel fimmtudaginn 25. maí og G7-ríkjanna í Taormina á Sikiley föstudaginn 26. maí og laugardaginn 27. maí. Ef marka má frásögn blaðamanna Le Monde stóðst hann prófið með prýði.

Blaðamennirnir segja að hvarvetna þar sem sást til nýja forsetans og konu hans Brigitte Macron hafi þau orðið Frökkum til sóma.

Macron hitti Donald Trump Bandaríkjaforseta í fyrsta sinn í hádegisverði í Brussel 25. maí en fyrir forsetakosningarnar í Frakklandi hafði Trump frekar hallast að stuðningi við Marine Le Pen, frambjóðanda Þjóðfylkingarinnar.

Fundar forsetanna í Brussel var beðið með nokkurri eftirvæntingu vegna ágreinings franskra og bandarískra stjórnvalda um nokkur mikilvæg alþjóðamál (gildi Parísar-samkomulagsins um loftslagsmál, reglur um alþjóðaviðskipti, stefnuna gagnvart Rússum o.fl.).

Eftir að hafa hitt Trump nokkrum sinnum í Brussel og í Taormina lýsti Macron honum sem manni sem hlustar og vill láta að sér kveða. „Ég hitti stjórnanda með sterka sannfæringu sem ég deildi að hluta eins og varðandi baráttuna gegn hryðjuverkum og sem ég var ósammála en um þá hluti ræddum við án alls tilfinningahita,“ sagði Macron um Trump.

Traust handtak Trumps og Macrons í Brussel.
Traust handtak Trumps og Macrons í Brussel.

Athygli vakti hve fast þeir tókust í hendur Trump og Macron fyrir framan fréttamenn á fundi sínum i Brussel. Macron sagði við blaðið Le Journal du Dimanche að hann hefði tekið fast í hendina á Trump af ásettu ráði. Slíku handabandi mættii líkja við „stund sannleikans“. Það verði að sýna að maður sé í raun fastur fyrir.

„Það truflar mig ekki að Donald Trump, Tyrklandsforseti eða Rússlandsforseti láti eins og þeir sterku. Ég hef ekki trú á að grípa opinberlega til átakastjórnmála en í tvíhliða samskiptum læt ég einfaldlega ekkert kyrrt liggja. Á þann hátt aflar maður sér virðingar.“

Macron bar lof á Trump fyrir að hlusta og vilja fræðast, hann væri opnari en menn segðu. „Honum falla bein samskipti vel og getur breytt um afstöðu.“

Macron hafði áður hitt Angelu Merkel, Theresu May og Paolo Gentiloni, forsætisráðherra Ítalíu. Nú hitti hann í fyrsta sinn Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, og Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.

Blaðamennirnir segja að það hafi greinilega verið evrópskum ráðamönnum kærkomið að hitta Macron. Eftir sigur hans í forsetakosningunum hafi þungu fargi verið létt af þeim sem kviðu því sem gerast kynni sigraði Marine Le Pen og vandræði vegna þess bættust við óvissu vegna stefnu Donalds Trumps og erfiðleikanna við útgöngu Breta úr ESB.

Haft er orð á því að vel hafi farið á með Macron og Trudeau í Taormina. Kanadíski forsætisráðherrann er sex árum eldri en Frakklandsforseti. Þeir hafi sést tveir einir að spjalli og á göngu milli funda.

Mánudaginn 29. maí kemur Vladimír Pútín Rússlandsforseti í heimsókn til Macrons í Versalahöll. Tilefni komu Pútíns til Frakklands nú er að efnt hefur verið til sýningar í Versölum til að minnast þess að árið 1717 heimsótti Pétur mikli Frakkland og þá var tekið upp stjórnmálasamband milli landanna. Frakklandsforseti bauð Pútín að sjá sýninguna þegar hann ræddi við hann í síma 8. maí sl. og þakkaði honum heillaóskir vegna úrslita forsetakosninganna.

Rússar studdu Marine Le Pen í forsetakosningunum og stóðu að tölvuárás á kosningaskrifstofu Macrons auk þess að dreift var óhróðri um hann sem sumir segja að hafi verið að fyrir lagi Rússa. Að Macron hitti Pútín í Versölum í stað forsetahallarinnar dregur úr opinberu gildi samtals þeirra í augum Frakka.

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …