Home / Fréttir / Ellefu punktar um nýja franska forsætisráðherrann

Ellefu punktar um nýja franska forsætisráðherrann

Gabriel Attal, forsætisráðherra Frakklands.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti setti þriðjudaginn 9. janúar Gabriel Attal, 34 ára, í embætti forsætisráðherra. Attal varð menntamálaráðherra sumarið 2023.

Nýi forsætisráðherra hóf þátttöku í formlegu stjórnmálastarfi 23 ára sem starfsmaður heilbrigðisráðuneytisins. Frá 2017 hefur Attal setið á þingi. Hann er yngstur allra til að verða forsætisráðherra Frakklands, yngri en sósíalistinn Laurent Fabius sem fékk embættið í forsetatíð François Mitterrands árið 1984, 37 ára að aldri.

Á vefsíðunni Politico eru talin upp 11 atriði sem sé gott að hafa í huga og snerta nýja franska forsætisráðherrann:

 1. Hann varð snemma stuðningsmaður Macrons án þess að vera þátttakandi í innsta hring forsetans. Attal sagði árið 2016 skilið við Sósíalistaflokkinn til að styðja Macron í forsetakosningum.
 2. Hann var talsmaður flokks Macrons í 10 mánuði árið 2018 og ríkisstjórnarinnar í tvö ár, 2020 til 2022.
 3. Hann er fyrsti forsætisráðherra Frakklands sem er opinberlega samkynhneigður.
 4. Hann nýtur mikilla vinsælda í skoðanakönnunum og á undanförnum sex mánuðum hafa vinsældir hans orðið meiri en Edouards Philippes sem var forsætisráðherra Macrons fyrir nokkrum árum og er sagður stefna í forsetakjör.
 5. Fyrir 12 árum kusu skólabræður Attals í Sciences Po í París hann sem forseta. Skólinn er óopinbert menntasetur fyrir stjórnmálamenn.
 6. Attal var í virðulegum einkaskóla í París, l’Ecole Alsacienne, með Juan Branco, fyrrv. lögfræðingi Julians Assange. Branco er sagður leggja Attal í einelti.
 7. Hann er fyrrverandi sósíalisti sem ávann sér virðingu íhaldsmanna. Attal gekk í Sósíalistaflokkinn árið 2006 áður en hann fékk kosningarétt. Hægrisinnaðir álitsgjafar og stjórnmálamenn gefa honum hins vegar gott orð. Honum er lýst sem pólitísku kamelljóni án margra fastra skoðana. Hann ávann sér virðingu margra sem menntamálaráðherra með því að banna abaya, síða kjóla sem múslímakonur klæðast stundum, í skólum. Sagt er að Nicolas Zarkozy, síðasti franski íhaldamaðurinn á forsetastóli, hafi hvatt hann til að íhuga forsetaframboð 2027.
 8. Attal neitaði að verða heilbrigðisráðherra sumarið 2023.
 9. Þegar Attal varð menntamálaráðherra fundu ýmsir pólitískir andstæðingar hans að því að maður sem aðeins hefði gengið í einkaskóla sem barn settist í þetta embætti. Attal viðurkenndi í sjónvarpsviðtali að hann hefði verið „heppinn“ í uppvexti sínum en til dæmis hefði skilnaður foreldra hans „reynt mjög á sig“. Faðir hans, Yves Attal, var kvikmyndaframleiðandi sem dó árið 2015.
 10. Yves, faðir Attals, var gyðingur frá Túnis og hluti fjölskyldu hans var handtekinn í annarri heimsstyrjöldinni og hvarf. Sjálfur var hann hins vegar alinn upp í kristnum rétttrúnaði af móður sinni af rússneskum ættum.
 11. Attal er í uppáhaldi hjá Brigitte Macron forsetafrú og fyrrverandi kennara. Hann vann náið með henni sem menntamálaráðherra. Þeim var sérstakt kappsmál að uppræta einelti í skólum. Þá studdi forsetafrúin ýmsar tillögur unga ráðherrans eins og að gerð yrði tilraun með skólabúninga fyrir nemendur.

 

 

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …