
Ellefu ára drengur, Hassan, komst heill á húfi til Slóvakíu eftir að hafa ferðast einn 1.200 km leið frá bænum Zaporizhzhia í austurhluta Úkraínu, aðeins með tvo litla poka, passa og símanúmer skyldmenna sinna.
Móðir drengsins gat ekki farið með honum og skilið aldraða móður sína eftir í bænum. Hún fylgdi honum í járnbrautarlest og við landamærin naut hann aðstoðar embættismanna við að komast yfir þau. Þeir lýstu drengnum sem sannri hetju og hann hefði brætt hjörtu allra með brosi sínu.
Þegar Hassan kom að landamærunum var hann með lítinn plastpoka, lítinn rauðan bakpoka og passann sinn. Sjálfboðaliðar gáfu honum að borða og drekka en landamæraverðir höfðu samband við ættmenni hans í Bratislava, höfuðborg Slóvakíu.
Slóvakíska lögreglan setti myndskeið á netið þar sem móðir drengsins þakkaði öllum fyrir að aðstoða son sinn og skýrði hvers vegna hann hefði ferðast einn þvert yfir landið undir árás Rússa.
„Við hliðina á bænum þar sem ég bý er orkuver undir skothríð Rússa. Ég gat ekki yfirgefið móður mína – hún getur ekki hreyft sig ein – svo að ég sendi son minn til Slóvakíu,“ sagði ekkjan Julia Pisecka. Með grátstafi í kverkunum hvatti hún til þess að börn frá Úkraínu fengju skjól í öðrum löndum.
Kjarnorkuverið í Zaporizhzhia er stærsta verið í Evrópu. Þegar rússneskir hermenn náðu því á sitt vald eftir eldsvoða skammt frá kjarnakljúfunum sex óttuðust margir margfalt meira kjarnorkuslys en varð 1986 í Tjernobyl í norðurhluta Úkraínu.
Hassan er einn af um það tveimur milljónum flóttamanna undan rússneska hernum í Úkraínu. Rúmlega 1,2 milljónir flóttamanna hafa farið til Póllands en 140.745 eru komnir til Slóvakíu að sögn Sameinuðu þjóðanna (SÞ).
Embættismaður í innanríkisráðuneyti Slóvakíu sagði að Hassan hefði unnið hug allra með brosi sínu, óttaleysi og festu. Hann sagðist hafa hringt í símanúmer sem skráð var á handarbak drengsins og einnig á blað sem hann hafði í vasa sínum. Númerið var frá ættingjum drengsins í Bratislava sem sóttu hann.
Roman Mikulec, innanríkisráðherra Slóvakíu, hitti Hassan mánudaginn 7. mars og sagði að hann og systkini hans hefðu þegar sótt um tímabundna vernd í Slóvakíu.
Heimild: BBC