Home / Fréttir / Elflaugavarnastöð tekur til starfa í Rúmeníu

Elflaugavarnastöð tekur til starfa í Rúmeníu

 

Frá eldflaugavarnastöðinni í Deveselu í Rúmeníu.
Frá eldflaugavarnastöðinni í Deveselu í Rúmeníu.

Embættismenn Rúmeníu og Bandaríkjanna opnuðu föstudaginn 18. desember formlega ratsjárstöð og gagnflaugastöð í Búkarest. Við athöfnina var tilkynnt að til starfa væri tekin hluti eldflaugavarnakerfis sem reist er í Evrópu. Kerfið mynda ratsjárstöðvar og SM-3 gagneldflaugar og manna rúmenskir og bandarískir sérþjálfaðir sjóliðar stöðina.

Bandaríski flotinn fer með yfirstjórn kerfisins sem hefur verið mörg ár í smíðum og myndar skjöld með því að leita uppi og granda eldflaugum sem skotið er í áttina að Evrópu. Bandaríkjastjórn hefur staðið undir kostnaði við smíði kerfisins og stöðvarinnar í Deveselu. Kostnaðurinn nemur 400 milljónum dollara auk þess sem reksturinn kostar 20 milljónir dollara á ári. Í stofnkostnaði er ekki reiknað með fjárfestingu í gagnflaugunum.

Rússar fagna því ekki að eldflaugavarnakerfið komi til sögunnar. Sergei Karakajev, yfirmaður langdrægs eldlaugahers Rússa, sagði í vikunni að rússneskar eldflaugar gætu brotist í gegnum eldflaugavarnavegginn sem Bandaríkjamenn hefðu reist.

Kerfið er ekki að fullu „starfhæft“ vegna þess að landkerfið hefur ekki verið fellt inn í stærra eldflaugavarnakerfi NATO. Sá hluti kerfisins sem er um borð í skipum treystir á fjóra tundurspilla sem eiga heimahöfn í Rota á Spáni. Næsta vor verður rúmenska stöðin að fullu starfandi.

Eldflaugavarnir hafa valdið spennu í samskiptum Rússa og Bandaríkjamanna í rúmlega þrjá áratugi. Þær voru átakaefni á fundi Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta og Mikhaíls Gorbatsjovs Sovétforseta í Höfða haustið 1986. Vladimir Pútín Rússlandsforseti gagnrýnir kerfið og segir það tilraun til að raska jafnvæginu sem fælingarmáttur kjarnorkuvopna skapaði milli austurs og vesturs í kalda stríðinu.

Bandaríkjastjórn segir að stöðin í Rúmeníu og sambærileg stöð í Póllandi veiti vörn gegn kjarnorkuógn frá Íran – ekki Rússlandi.

Gagneldflaugastöðin er í Deveselu, gamalli 174 hektara rúmenskri flugherstöð. Sjóliðar munu standa þar vakt sex mánuði í senn. Þar eru þrískiptar 11 manna vaktir. Í stöðinni er Aegis SPY-1 ratsjárkerfi og skotpallar búnir langdrægum gagnflaugum sem talið er að kosti einn milljarð dollara.

Þegar stöðin í Rúmeníu verður orðin starfhæf að fullu mun stjórn hennar falla undir NATO.

 

Skoða einnig

Kristilegir demókratar (CDU) velja sér nýja forystu

Kristilegir demókratar (CDU), flokkur Angelu Merkel, fráfarandi kanslara, kemur saman fyrir árslok til að velja …