
Embættismenn Rúmeníu og Bandaríkjanna opnuðu föstudaginn 18. desember formlega ratsjárstöð og gagnflaugastöð í Búkarest. Við athöfnina var tilkynnt að til starfa væri tekin hluti eldflaugavarnakerfis sem reist er í Evrópu. Kerfið mynda ratsjárstöðvar og SM-3 gagneldflaugar og manna rúmenskir og bandarískir sérþjálfaðir sjóliðar stöðina.
Bandaríski flotinn fer með yfirstjórn kerfisins sem hefur verið mörg ár í smíðum og myndar skjöld með því að leita uppi og granda eldflaugum sem skotið er í áttina að Evrópu. Bandaríkjastjórn hefur staðið undir kostnaði við smíði kerfisins og stöðvarinnar í Deveselu. Kostnaðurinn nemur 400 milljónum dollara auk þess sem reksturinn kostar 20 milljónir dollara á ári. Í stofnkostnaði er ekki reiknað með fjárfestingu í gagnflaugunum.
Rússar fagna því ekki að eldflaugavarnakerfið komi til sögunnar. Sergei Karakajev, yfirmaður langdrægs eldlaugahers Rússa, sagði í vikunni að rússneskar eldflaugar gætu brotist í gegnum eldflaugavarnavegginn sem Bandaríkjamenn hefðu reist.
Kerfið er ekki að fullu „starfhæft“ vegna þess að landkerfið hefur ekki verið fellt inn í stærra eldflaugavarnakerfi NATO. Sá hluti kerfisins sem er um borð í skipum treystir á fjóra tundurspilla sem eiga heimahöfn í Rota á Spáni. Næsta vor verður rúmenska stöðin að fullu starfandi.
Eldflaugavarnir hafa valdið spennu í samskiptum Rússa og Bandaríkjamanna í rúmlega þrjá áratugi. Þær voru átakaefni á fundi Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta og Mikhaíls Gorbatsjovs Sovétforseta í Höfða haustið 1986. Vladimir Pútín Rússlandsforseti gagnrýnir kerfið og segir það tilraun til að raska jafnvæginu sem fælingarmáttur kjarnorkuvopna skapaði milli austurs og vesturs í kalda stríðinu.
Bandaríkjastjórn segir að stöðin í Rúmeníu og sambærileg stöð í Póllandi veiti vörn gegn kjarnorkuógn frá Íran – ekki Rússlandi.
Gagneldflaugastöðin er í Deveselu, gamalli 174 hektara rúmenskri flugherstöð. Sjóliðar munu standa þar vakt sex mánuði í senn. Þar eru þrískiptar 11 manna vaktir. Í stöðinni er Aegis SPY-1 ratsjárkerfi og skotpallar búnir langdrægum gagnflaugum sem talið er að kosti einn milljarð dollara.
Þegar stöðin í Rúmeníu verður orðin starfhæf að fullu mun stjórn hennar falla undir NATO.