Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands ákváðu á fundi sínum í Genf föstudaginn 22. janúar að áfram yrði unnið að því að þeirra hálfu að draga úr spennu vegna Úkraínu. Bandaríski ráðherrann lofaði að bregðast skriflega við kröfum Rússa í næstu viku.
Antony Blinken og Sergeij Lavrov ræddu saman í 90 mínútur á fundi sem boðað var til með skömmum fyrirvara af ótta við upp úr kynni að sjóða og rússneskur herafli yrði sendur inn í Úkraínu.
Rússar hafa safnað saman tugþúsundum þungvopnaðra hermanna við landamæri Úkraínu. Þeir neita að fyrir þeim vaki að ráðast inn í nágrannaland sitt en krefjast öryggistrygginga, þar með um að Úkraína verði aldrei aðili að NATO.
Blinken sagði að fundinum loknum að Bandaríkjamenn hefðu ekki vænst þess að þáttaskil yrðu á þessum fundi. Hann taldi hins vegar að nú lægi skoðun hvors aðila um sig skýrt fyrir. Hann mundi senda Rússum skriflegar hugmyndir í næstu viku og síðan vænti hann frekari viðræðna.
Á blaðamannafundi sínum sagði Lavrov að þeir hefðu lokið samtali sínu með skriflegu samkomulagi um að Rússar fengju skriflegt svar við tillögum sínum í næstu viku. Vonandi tækist að minnka tilfinningahitann og ræða saman af skynsemi. Hann sagðist ekki vita hvort þeir væru komnir á réttu brautina, það kæmi í ljós þegar Rússar fengju svar sitt.
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði hreint út miðvikudaginn 20. janúar að líklega mundi Vladimir Pútin Rússlandsforseti „láta til skarar skríða“ gegn Úkraínu en það leiddi til „hörmunga“ fyrir Rússa.
Föstudaginn 22. janúar áréttuðu Rússar kröfur sínar um „brottflutning erlends herliðs, búnaðar og vopna“ frá löndum sem voru ekki í NATO fyrir árið 1997 auk þess að nefna sérstaklega tvö fyrrverandi aðildarrríki Varsjárbandalagsins sem gengu í NATO árið 2004, Búlgaru og Rúmeníu.
Rúmenski utanríkisráðherrann brást strax við kröfunni og hafnaði henni, hún væri ekki samningsatriði.
Áður en Blinken fór til Genfar var hann í Kiev til að sýna samstöðu með Úkraínumönnum og í Berlín þar sem hann ræddi við utanríkisráðherra Bretlands, Frakklands og Þýskalands.
Bandaríkjastjórn hefur birt upplýsingar frá njósnurum sem gefa til kynna að innan skamms komi til innrásar í Úkraínu í kjölfar rússneskrar ögrunar í blekkingarskyni.
Leyniþjónusta hers Úkraínu sakaði 22. janúar Rússa um að hafa sent ný vopn og tæki til aðskilnaðarmanna í austurhluta Úkraínu eftir áramótin, þar á meðal skriðdreka, fallbyssur og skotfæri.