
Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að Verkamannaflokkurinn (n. Arbeiderpartiet) sé stærsti flokkurinn að þeim loknum. Þessi sögulegu tímamót urðu hins vegar í sveitarstjórnarkosningum mánudaginn 11. september 2023.
Að kosningunum loknum er Hægriflokkurinn undir forystu Ernu Solberg stærsti flokkur Noregs með 25,9% atkvæða, bætti flokkurinn við sig 5,8 prósentustigum miðað við sveitarstjórnarkosningarnar 2019.
Verkamannaflokkurinn fékk 21,7% atkvæða og tapaði 3,1 prósentustigi. Sá flokkur sem tapaði mestu fylgi var samstarfsflokkur Verkamannaflokksins í ríkisstjórn, Miðflokkurinn (n. Senterpartiet). Hann fékk 8,2% atkvæða en tapaði 6,2 prósentustigum miðað við fylgið fyrir fjórum árum.
Fylgistap stjórnarflokkanna endurspeglar óvinsældir ríkisstjórnarinnar frá því að hún var mynduð að loknum þingkosningum 2021.
Breytingar verða á meirihluta í mörgum stærstu borgum Noregs vegna sveiflunnar til hægri meðal borgarfulltrúa.
Í Osló hóf Hægriflokkurinn viðræður um nýjan borgarstjórnarmeirihluta þriðjudaginn 12. september. Borgarstjóri vinstri meirihlutans í Bergen undir forystu Verkamannaflokksins hefur sagt af sér. Hægriflokkurinn ræðir við aðra um myndun nýs meirihluta.
Hægriflokkurinn leiðir meirihluta með Framfaraflokknum, Kristilega þjóðarflokknum, Venstre og Miðflokknum í Kristiansand.
Mestar líkur eru taldar á hægri meirihlutastjórn í Stavanger sem löngum hefur verið í höndum borgaraflokkanna. Að þessu sinni naut nýr oddviti Verkamannaflokksins vinsælda meðal borgarbúa og jók fylgi flokksins um 6,7 stig frá 2019 í 32,2% – mesta fylgi flokksins í Stavanger í 40 ár.
Verkamannaflokkurinn hefur í 100 ár haft forystu í Lillestrøm en nú hverfur hún að líkindum til Hægriflokksins.
Pattstaða er milli hægri og vinstri í Þrándheimi.
Fyrir kosningarnar var talið að niðurstaða hefði fengist um framtíð léttlestarkerfis í Bergen. Nú að kosningum loknum kann Hægriflokkurinn að þurfa að taka U-beygju í afstöðu sinni og opna borgarlínumálið að nýju til að mynda meirihluta með smáflokkum sem leggjast gegn því að lestin fari um bryggjuna framan við gömlu Hansakaupmannahúsin (n. Bryggen) í hjarta gömlu hafnarinnar í Bergen.
Bryggen er á heimsminjaskrá UNESCO og í meira en áratug hefur verið deilt um hvort leggja eigi lestarteina fyrir framan húsin og tengja miðborgina og Hákonarhöllina sem er utar við höfnina.
Vorið 2023 var talið að samkomulag hefði náðst í borgarstjórninni um lagningu borgarlínunnar þarna en nú fengu smáflokkar andstæðir línunni menn kjörna og beita þeir sér af miklum þunga strax á fyrsta degi að kosningum loknum.
Þrýst á forsætisráðherrann
Sótt er að Jonas Gahr Støre, formanni Verkamannaflokksins og forsætisráðherra, úr mörgum áttum eftir kosningarnar með gagnrýni á forystu hans sem leitt hafi til þessarar dapurlegu niðurstöðu.
Thorbjørn Bertsen, fyrrverandi ráðherra og varaformaður Verkamannaflokksins, segir að forsætisráðherrann eigi að slíta samstarfinu við Miðflokkinn og halla sér meira til vinstri. Ríkisstjórnina skortir eitt atkvæði til að hafa meirihluta á þingi og treystir því á stuðning Sósíalíska vinstriflokksins (SV) (6,8% atkv.) til að koma í gegn fjárlögum og öðrum mikilvægum frumvörpum.
Norska Alþýðusambandið (LO) hefur einnig beint spjótum að forsætisráðherranum og hvatt hann til að gera betur. Forseti LO sagði að hreyfingin yrði að leggja sig meira fram við að virkja kjósendur í þágu Verkamannaflokksins.
Smáflokkar
Fyrir þremur árum kom INP-flokkurinn (n. Industri- og næringspartiet, INP) til sögunnar. Flokkurinn fékk 3% í kosningunum núna en hann lagði til dæmis áherslu á andstöðu sína við vindorkuver. Flokkurinn er í andstöðu við mörg meginatriði norskra stjórnmála eins og til dæmis EES-aðildina.
Noregsdemókratar buðu fram og hlutu aðeins 0,5% atkvæða en þeir skipa sér langt til hægri. Geir Ugland Jacobsen flokksformaður, áður forystumaður innan Framfaraflokksins, bauð sig fram í Osló og fékk aðeins 900 atkvæði, færri en flokkar eins og Folkestyre-listen, Folkets parti og Pensjonistpartiet.