
Vladimir Pútin Rússlandsforseti hitti Xi Jinping, forseta Kína, í Samarkand í Úsbekistan fimmtudaginn 15. september og fordæmdi það sem hann kallaði tilraunir Vesturlanda til að skapa „einpóla heim“. Hefur þetta lengi verið umkvörtunarefni Pútins en með orðunum vísar hann til þess að stöðva verði „yfirgang“ Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi.
BBC segir að í orðum sem Pútin lét falla á meðan blaðamenn fylgdust með fundi forsetanna hafi hann viðurkennt að Kínverjar væru „áhyggjufullir“ og hefðu „spurningar“ vegna Úkraínu. Jafnframt hrósaði hann „yfirvegaðri afstöðu“ Kínverja til stríðsins í Úkraínu.
Kínverjar hafa til þessa staðfastlega neitað að gagnrýna hernað Rússa gegn Úkraínumönnum en hins vegar beint gagnrýnisorðum að vestrænum refsiaðgerðum gegn rússneskum stjórnvöldum. Viðskipti Kínverja við Rússa hafa aukist undanfarna mánuði samhliða annars konar tengslum.
Rússar hafa fyrir sitt leyti staðið fast að baki Kínverjum vegna spennu og ágreinings þeirra við Bandaríkjastjórn eftir að Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, heimsótti Tævan fyrir skömmu.
Áður en Pútin hitti Xi í Samarkand í tengslum við toppfund Shanghai-samstarfsstofnunarinnar (SCO) gerðu rússneskir fjölmiðlar og Kremlverjar mikið veður út af tvíhliða fundi þeirra.
Xi er í Samarkand í fyrstu ferð sinni út fyrir landamæri Kína frá því að COVID-faraldurinn hófst fyrir tæpum þremur árum. Í Kína gilda enn reglur um „innilokun“ í sumum héruðum vegna faraldursins.
Þetta var í fyrsta sinn sem forsetarnir hittust eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.
Í frétt Euronews segir að Pútin hafi sagt við Xi að tilraunirnar til að koma á „einpóla heimi“ hefðu fengið á sig hryllilega mynd og þær væru með öllu óþolandi.
Þá segir að Xi Jinping hafi fullvissað Pútin um að Kína hefði hug á að skipa sér sem „stórveldi“ við hlið Rússlands. Kínverjar væru reiðubúnir til að gegna forystuhlutverki og stuðla að stöðugleika og beina jákvæðri orku inn í heim í upplausn.
Rosemary Foot, fyrrv. prófessor í alþjóðasamskiptum í Oxford, sagði við BBC að fyrir Pútin skipti meiru en fyrir Xi að þeir hittust, þar sem Rússar væru verulega einangraðir á alþjóðavettvangi.
„Það er því mikilvægt að sýna Kína sem stuðningsaðila, ekki sem bandamann heldur stuðningsgeranda. Tengslin eru náin.“
Fyrir Xi skiptir allt sem sýnt er frá fundinum meira máli nú en oft áður þegar þeir Pútin hafa hist.
Kínaforseti stefnir að sögulegum sigri á fundi Kommúnistaflokks Kína í næsta mánuði þegar hann býður sig fram sem leiðtoga flokksins í þriðja sinn og brýtur þannig reglu sem sett var um tvö fimm ára kjörtímabil flokksleiðtoga eftir dauða Maós formanns.
Kínverjar og Rússar stofnuðu SCO árið 2001 með fjórum fyrrverandi Sovétlýðveldum í Mið-Asíu auk Indlands, Pakistans og Írans. SCO er fjölþjóðlegur samstarfsvettvangur til hliðar við fjölþjóðasamtök með þátttöku Bandaríkjanna eða annarra vestrænna ríkja.
Pútin og Xi hittust síðast á vetrarólympíuleikunum í Peking í febrúar. Þá vakti athygli yfirlýsing þeirra um að gagnkvæm vinátta þeirra væri „takmarkalaus“. Rússar réðust nokkrum dögum síðar inn í Úkraínu.
Kínastjórn hefur hvatt til þess að stríðsátökunum í Úkraínu ljúki og lagt áherslu á fullveldisrétt þjóða. Hún hefur hins vegar einnig neitað að kalla stríðið innrás þar sem Rússar segi það vera „sérstaka hernaðaraðgerð“.
Undanfarnar vikur hafa kínverskir hermenn tekið þátt í heræfingum með Rússum og kínverskir herforingjar hafa hitt starfsbræður í Rússlandi. Kínverjar hafa einnig veitt Rússum efnahagsaðstoð til að vega upp á móti vestrænum refsiaðgerðum.
Kínverjar greiða með rúblum fyrir gas sem þeir kaupa í auknum mæli af Rússum á afsláttarkjörum eftir að lokað var fyrir gassölu til Evrópu. Þá eru kínverska myntin yuan einnig notuð í þessum viðskiptum.
Bandaríska leyniþjónustustofnanir segja að ráðamenn í Moskvu snúi sér nú til allra sem þeir geti i örvæntingarfullri leit að skotfærum og hergögnum. Rússar hafi stofnað til vopnakaupa af Írönum og Norður-Kóreumönnum. Þeir hafi einnig rætt þessi mál við Kínverja en ekkert bendi til þess að þeir hafi þar haft erindi sem erfiði.
BBC vísar til sérfróðra manna um málefni Kína sem segja að þrátt fyrir að Xi vilji sýna Pútin vinsemd opinberlega vilji hann einnig halda sig fjarri honum af ýmsum ástæðum.
Það bæti ekki ímynd Kínastjórnar núna þegar hallar undan fæti hjá Moskvumönnum á vígvellinum að flagga vinsemd við þá meira en gert hefur verið til þessa.
Þá sé það ekki hagstætt fyrir Xi að fyrrverandi Sovétlýðveldin í Mið-Asíu, fjögur þeirra eru í SCO, styðja ekki innrás Rússa í Úkraínu. Þeim er ekki að skapi að Rússar telji sig hafa „rétt“ til að sýna fyrrverandi Sovétlýðveldum í tvo heima á þennan hátt og virða fullveldi þeirra og landamæri einskis.